Körfubolti

Ekkert lið fellur úr Dominos-deild kvenna í vetur | Aðeins 7 lið skráð til leiks

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Björg Guðrún Einarsdóttir í leik með KR á síðasta tímabili en KR sendir ekki lið til keppni í Dominos-deild kvenna í vetur.
Björg Guðrún Einarsdóttir í leik með KR á síðasta tímabili en KR sendir ekki lið til keppni í Dominos-deild kvenna í vetur. Vísir/Vilhelm
Körfuknattleikssambands Íslands, KKÍ, sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem kom fram að aðeins sjö lið myndu taka þátt í Dominos-deild kvenna í vetur og að ekkert lið myndi falla úr deildinni í vor.

Var þessi ákvörðun tekin af mótastjórn KKÍ í dag eftir að KR dróg lið sitt úr keppni og óskaði eftir því að félagið yrði skráð í 1. deildina á komandi tímabili. Hafa leikmenn liðsins og þjálfari gengið til liðs við önnur lið undanfarnar vikur.

KKÍ bauð næstu liðum á styrkleikaröðuninni sæti KR liðsins sem voru Breiðablik og Njarðvík en liðin höfnuðu boði mótastjórnarinnar.

Verða því aðeins sjö lið sem keppa í vetur og sex lið í 1. deild kvenna og mun ekkert lið falla niður um deild í vor.

Tilkynning KKÍ:

Á dögunum óskaði KR eftir því við mótanefnd KKÍ að skráning þeirra fyrir meistaraflokk kvenna yrði breytt.

Liðið var skráð í úrvalsdeildina en félagið vildi breyta skráningunni í 1. deild kvenna. Mótanefnd KKÍ varð við því.

Um leið ákvað mótanefnd KKÍ að bjóða tveim næstu félögunum samkvæmt styrleikaröðun en það voru Breiðablik og Njarðvík.

Bæði lið hafa afþakkað sætið og því verða sjö lið í Domino´s deild kvenna í vetur og sex lið í 1. deild kvenna.

Ekkert lið mun falla úr Domino´s deildinni næsta vetur.

Allir leikir KR falla niður í Domino´s deild kvenna. Ekki þarf að gera aðrar breytingar á dagskránni og verða því 28 umferðir en eitt lið situr hjá í hverri umferð.


Tengdar fréttir

KR segir sig úr keppni í Dominos-deildinni

Kvennalið KR verður ekki með í Dominos-deild kvenna á komandi vetri en stjórn körfuknattleiksdeildar KR ákvað í kvöld að segja sig úr keppni.

Helga Einarsdóttir: Vantaði metnaðinn hjá öllum KR-ingum

Helga Einarsdóttir, fráfarandi fyrirliði kvennaliðs KR í körfubolta, var í viðtali við Hjört Hjartarson í Akraborginni á X-inu í dag en stjórn körfuknattleiksdeildar KR hefur ákveðið að draga kvennaliðið úr keppni í Dominos-deild kvenna á komandi tímabili.

Valur fær tvo leikmenn frá KR

Lið Vals í Domino's deild kvenna barst góður liðsstyrkur í gær þegar Bergþóra Holton Tómasdóttir og Dagbjört Dögg Karlsdóttir skrifuðu undir samninga við félagið.

Björn hættur með KR-konur

Björn Einarsson mun ekki þjálfa kvennalið KR í körfubolta á næsta tímabili eins og til stóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×