Lífið

Útgáfutónleikar Diktu

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Hljómsveitin verður klædd í sparifötin á tónleikunum í kvöld.
Hljómsveitin verður klædd í sparifötin á tónleikunum í kvöld.
Hljómsveitin Dikta fagnar í kvöld útgáfu sinnar fimmtu breiðskífu, Easy Street.

Útgáfu plötunnar verður fagnað í Norðurljósasal Hörpu.

„Við erum gríðarlega spenntir, þetta er í fyrsta skipti í Hörpunni og ný plata þannig að þetta eru ný lög fyrir okkur líka. Við höfum ekkert spilað þessi lög mikið, við vorum í svona smá hléi í spilamennsku,“ segir bassaleikari sveitarinnar, Skúli Z. Gestsson, og bætir við að öllu verði til tjaldað í kvöld. „Þetta verður eins og venjan er á útgáfutónleikum, aukahljóðfæraleikarar og allt í sparifötum. Við í sparifötum og lögin í sparifötum.“

Hljómsveitin hefur verið starfandi í fjölda ára og segir Skúli því ekki mikið stress í mannskapnum fyrir að koma fram. „Við erum búnir að vera hljómsveit í sautján ár þannig að það er ekkert mikið stress. Þetta er alltaf gaman,“ segir hann og bætir við: „Þetta er náttúrulega hljómsveit en líka bara vinátta þannig að stress er ekkert rosalega fyrirferðarmikið.“

Á næstunni mun hljómsveitin vinna að því að kynna nýju plötuna og meðal annars spila á tónlistar­hátíðinni Airwaves sem fer fram í byrjun nóvember og á næsta ári ætlar hún að kynna plötuna erlendis en platan kemur út á næstunni í Þýskalandi.

Hljómsveitina Diktu skipa þeir Haukur Heiðar Hauksson, Jón Bjarni Pétursson og Jón Þór Sigurðsson auk Skúla. Tónleikarnir fara fram í Hörpu klukkan 21.00.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×