„Þrautirnar í leiknum geta verið snúnar og reynir þá vel á rökhugsunina hjá krökkunum. Við sáum það strax í notendaprófunum að það getur reynst erfitt að þurfa samhliða því að þýða enskuna yfir á íslensku. Leikurinn ætti því að vera mikil búbót hér á landi,“ segir Vignir Örn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Radiant Games, í tilkynningu.
Leikurinn hentar krökkum átta ára og eldri. Hægt er að nálgast leikinn á App Store fyrir iPad og kostar hann rúmar 700 krónur.
„Boðskapurinn er ekki sá að allir eigi að verða forritarar þegar þeir verða eldri. Þetta snýst um mikilvægi þess að við skiljum hvernig heimurinn í kringum okkur virkar í dag og hvernig hann mun virka í framtíðinni,” segir Vignir, og við bætir við að forritun sé dulin fyrir mörgum.
„Forritun er í raun leið okkar til þess að eiga samskipti við tölvur. Rétt eins og við notum tungumál til að tala, eða hljóðfæri til að flytja tónlist, þá notum við forritunarmál til að forrita og tjá okkur við tölvur. Forritun er því verkfæri til þess að örva sköpunargleðina og búa til nýja hluti í hinum stafræna heimi.”

Samkvæmt tilkynningunni er markmið Radiant Games er að búa til skemmtilega leiki fyrir krakka sem kveikja áhuga þeirra á forritun. Stofnendur Radiant Games segjast sjálfir vera dæmi um einstaklinga sem fengu kynningu á forritun alltof seint á lífsleiðinni. Þeir tóku eftir því að ekki hafði mikið breyst frá því að þeir ólust upp og ákváðu því að gera eitthvað í málinu.
Stofnendur fyrirtæksins eru Guðmundur Valur Viðarsson, Haukur Steinn Logason, Vignir Örn Guðmundsson og Þorgeir Auðunn Karlsson. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á heimasíðu fyrirtækisins.