Innlent

Mikilvægt að ganga frá lausamunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Sjóvá hvetur íbúa til þess að færa til lausa hluti eða festa niður.
Sjóvá hvetur íbúa til þess að færa til lausa hluti eða festa niður. Vísir/Stefán
Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru hvattir til þess að huga að hlutum sem geta fokið á morgun. Þá er lítið ferðaveður fyrir bíla með aftanívagna og húsbíla. Spáð er hvössu veðri og rigningu á morgun og þá sérstaklega við suður- og suðvesturströnd landsins.

Reiknað er með að um hádegi muni taka að hvessa og að vindur nái hámarki síðdegis. Samkvæmt vef Veðurstofunnar má búast við vindhviðum allt að 35 m/s við fjöll.

Í tilkynningu frá Sjóvá eru íbúar hvattir til þess að færa til lausa hluti eða festa niður. Þar er átt við trampólín, útihúsgögn, sólhlífar og grill, svo eitthvað sé nefnt.

„Alltof mörg dæmi eru um óþarfa tjón vegna foks á lausum munum sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir. Spörum krafta björgunarsveitanna fyrir átök vetrarins og sýnum fyrirhyggju,“ segir í tilkynningunni.

Á vef Vís er er einnig ítrekað að mikilvægt sé að ganga vel frá eigum og húsum. Þar má sjá lista yfir mikilvægar ráðstafanir vegna veðursins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×