Innlent

Dæmigert veður fyrir síðdegisskúrir

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Svona er útlitið fyrir kvöldið og helgin ætti að vera svipuð fyrir utan nokkrar skúrir.
Svona er útlitið fyrir kvöldið og helgin ætti að vera svipuð fyrir utan nokkrar skúrir.
„Þetta verður hæglætisveður í kortunum áfram,“ segir Hrafn Guðmundsson veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands aðspurður um helgarveðrið. „Það er svalt loft núna yfir landinu og það verður áfram.“

Fólk getur búist við hitatölum upp að 10°C norðan og austan lands en á Suður- og Vesturlandi getur hiti farið farið upp í 15°C þar sem best lætur. Líklegt er að lítið verði um vind þó að hafgola gæti gert vart við sig við strendur landsins.

„Þetta er dæmigert síðdegisskúra veður líkt og síðustu daga hér á suðurhorninu en það gæti verið meiri væta á öðrum stöðum. Það gætur komið hressilegar skúrir alla dagana.“

Blaðamaður lagði tvær spurningar fyrir veðurfræðinginn að lokum. Ef þú myndir ákveða núna að fara út á land, annars vegar með fjölskyldu þinni og hins vegar með vinum þínum í bústað, hvert myndirðu fara?

„Í fyrra dæminu hugsa ég að ég myndi bara vera í bænum áfram. Veðrið hér hefur verið ágætt,“ segir Hrafn. „Í síðari möguleikanum hugsa ég að eins og staðan er núna myndi ég velja Borgarfjörðinn. Mér sýnist ætla að vera einna þurrast þar.“

Fleiri fréttir um veður er hægt að lesa á Veðurvef Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×