Innlent

Spá um lítilsháttar slyddu á Akureyri ber að taka með fyrirvara

Birgir Olgeirsson skrifar
Akureyringar gætu þurft að draga fram úlpurnar fyrir helgi.
Akureyringar gætu þurft að draga fram úlpurnar fyrir helgi. Vísir/Pjetur
Fremur svalt verður í veðri um komandi helgi ef marka má veðurspá Veðurstofu Íslands. Svo svalt að á miðnætti á laugardag er spáð eins stigs hita á Akureyri og jafnvel lítilsháttar slyddu. Haraldur Eiríksson, vaktaveðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir þó að taka verði þessari spá um lítilsháttar slyddu á Akureyri með fyrirvara.

„Það er norðan átt um helgina en það er líklegast að þetta verði rigning á láglendi. Það getur slyddað til fjalla og á hálendinu, það er líklegra,“ segir Haraldur í samtali við Vísi um málið. Hann segir lítið um hlýindi yfir landinu þegar horft er rúma viku fram í tímann. „Maður sér engin hlýindi. Það er milt loft yfir okkur í dag og á morgun. En út af vætunni er ekkert sérstaklega hlýtt. Svo er hann að halla sér meira í norðanátt um helgina. Þá sígur hitinn bara niður.“

Veðurhorfur næstu daga:

Norðaustan 5-13 m/s, en hægari breytileg átt SV-til. Víða rigning, einkum um landið S- og A-vert. Dregur úr rigningunni síðdegis á morgun. Hiti 7 til 16 stig, hlýjast á SV-landi.

Á miðvikudag og fimmtudag:

Norðaustan og austan 3-8 m/s. Skýjað en úrkomulítið N- og A-lands og hiti 7 til 12 stig. Bjart með köflum á S- og V-landi, en líkur á stöku skúrum síðdegis. Hiti að 17 stigum.

Á föstudag:

Norðan 3-8 og skýjað, en víða léttskýjað á SV- og V-landi. Hiti 12 til 17 stig, en 5 til 10 stig N- og A-lands.

Á laugardag:

Norðlæg átt, skýjað með köflum og dálítil rigning NA-til. Hiti breytist lítið.

Á sunnudag:

Norðanátt og rigning N- og A-lands, annars úrkomulítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×