Innlent

Kólnandi veður og gera ráð fyrir slyddu til fjalla

Birgir Olgeirsson skrifar
Búast má við köldum nóttum á hálendinu.
Búast má við köldum nóttum á hálendinu. Vísir/Vilhelm
Nú spáir kólnandi veðri sem skrifast á norðan áttina sem dregur kalt heimskautaloft til landsins og má búast við slyddu til fjalla á morgun. Þeir sem stefna á ferðalag upp á hálendið á næstu dögum geta átt von á köldum nóttum ef gista á í tjaldi.

Á morgun má gera ráð fyrir norðan og norðvestan átt, þremur til átta metrum á sekúndu, og rigningu á austurhelmingi landsins seinnipartinn. Yfirleitt þó bjartviðri annars staðar. Hiti 6 - 18 stig að deginum, hlýjast um suðvestanvert landið. Kalt í innsveitum norðanlands í nótt.

Á fimmtudag er búist við norðlægri átt, 3 - 10 metrum á sekúndu. Skýjað og dálítil væta fyrir norðan og austan, jafnvel slydda til fjalla. Annars bjartviðri á köflum. Hiti 5 - 15 stig, hlýjast suðvestanlands, en kaldast á norðanverðu landinu.

Á föstudag verður norðaustlæg átt, 3 til 10 metrar á sekúndu. Tiltölulega skýjað og úrkoma á víð og dreif, síst þó á Vesturlandi. Hiti breytist lítið.

Á laugardag má búast við norðaustan átt, 10 - 15 metrum á sekúndu, með suðausturströndinni og norðvestanlands en hægari vindur annars staðar. Rigning suðaustan- og austanlands, annars þurrt að mestu og bjartviðri á köflum vestanlands. Hlýnar heldur í veðri.

Á sunnudag og mánudag verður áframhald á norðaustlægum áttum með vætu öðru hverju norðan- og austanlands, en björtum köflum suðvestan- og vestanlands. Hiti 6 til 16 stig mildast á Suðvesturlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×