Innlent

Snjókoma og slydda á morgun

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá hríðarbyl á Akureyri.
Frá hríðarbyl á Akureyri. VÍSIR/AUÐUNN
Eyfirðingar gætu þurft að draga fram Kraft-gallana í nótt ef marka má spá Veðurstofunnar en hún gerir ráð fyrir slyddu og snjókomu norðan heiða á morgun.  

Í samtali við fréttastofu segir Elín Björk Jónasdóttir, vaktaveðurfræðingur hjá Veðurstofunni, að töluverður kuldi sé í kortunum fyrir vikuna og að ekki taki að hlýna aftur fyrr en um næstu helgi. Hitinn á norður- og austurland verði á bilinu 1 til 7 stig en ívið hlýrra verði á suðvesturhorninu.

Elín bætir þó við að hitinn kunni að fara niður fyrir frostmark víða um landi í vikunni, á hálendinu sem og við sjávarsíðuna og gæti úrkoman sem fellur til á þeim tíma því verið í formi snjókomu - þá sérstaklega á nóttunni.

Veðurspá vikunnar er á þá leið að á miðvikudag er búist við vorðan 5 til 13 metrum á sekúndu með rigningu norðantilá landinu og sums staðar slyddu inn til landsins. Lægir seinnipartinn og dregur úr úrkomu. Hægari austanátt um um landið sunnanvert og bjartviðri framan af degi, en skúrir syðst þegar líður á daginn. Hiti 1 til 6 stig norðantil, en allt að 12 stig sunnantil.

Á fimmtudag, föstudag og laugardag er búist við hægri norðaustlægri eða breytilegri átt. Henni fylgja skúrir eða dálítil rigning í flestum landshlutum. Hiti verður á bilinu 2 til 10 stig, hlýjast á suðvesturlandi.

Á sunnudag eru líkur á vestlægri átt með súldarlofti við vesturströndina en þurru og björtu veðri fyrir austan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×