Innlent

Vindurinn ekki til ama eftir daginn í dag

Stefán Ó. Jónsson skrifar
VÍSIR/STEFÁN
Íslendingar, í það minnsta þeir á norðan- og vestanverðu landinu, mega búast við töluverðu hvassviðri eitthvað fram yfir miðnætti.

Veðurstofan býst við því að meðalvindhraði verði um og yfir tuttugu metrar á sekúndu fram eftir degi en að veðrið verði strax „þeim mun skaplegra á morgun,“ að sögn Teits Arasonar vakthafandi veðurfræðings.

Þá fylgi þessum vindi talsverð rigning „fram yfir kvöldmat,“ eins og Teitur komst að orði en þá taki að stytta upp aftur.

Skýringana segir Teitur vera að leita í lægð sem nú „treður sér“ á milli Íslands og Grænlands og þéttir hún töluvert á þrýstilínum í veðurkortunum. „Síðan fer lægðin sína leið norðaustur yfir landið og er svo úr sögunni,“ segir Teitur.

Hann gerir ráð því að hægja muni töluvert á vindi eftir því sem líður á vikuna en að hlýindin muni þó ekki láta sjá sig í þessari viku. Hitinn muni rokka í kringum tíu gráðurnar og vindhraðinn verði á bilinu fimm til tíu metrar á sekúndu.

„Bestu fréttirnar í þessu öllu saman eru þær að eftir daginn í dag þá verður vindurinn ekki til ama,“ segir Teitur. „Hitinn hlýtur svo að láta sjá sig einhvern tímann í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×