Borgarráð Reykjavíkurborgar hafnaði sex styrkumsóknum á fundi sínum í gær. Á meðal þeirra var umsókn um styrk frá Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar vegna íslenska skálans á Feneyjatvíæringnum í myndlist 2015 en vinnuheiti hans var Fyrsta moskan í Fenyejum.
Fór Kynningarmiðstöð fram á þriggja milljóna króna styrk en Reykjavíkurborg hafnaði umsóknum á þeim forsendum að verkefnið var þegar hafið þegar umsóknin barst.
„Við höfum sett okkur einfalda á reglu á borgarráðspotti að við styrkjum ekki verkefni sem eru þegar hafin eða búin og þetta var verkefni sem er byrjað og fellur bara undir þá reglu,“ segir S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs, í samtali við Vísi um málið.
Verkið Fyrsta moskan í Fenyejum er hugarfóstur hins svissnesk-íslenska Christop Buchel en hún vakti talsverða athygli en fór svo að lokum að lögreglan lokaði fyrir aðgang að henni í síðustu viku.
Ásamt styrkumsókninni frá kynningarmiðstöðinni hafnaði borgarráð einnig styrkumsóknum frá Kvennakór Léttsveitar Reykjavíkur, James C. Lux, Pétri Smára Tajford, Jóni Má Ásbjörnssyni og Íslenska dansfræðafélaginu.