Innlent

Lögreglan byrjar að sekta ökumenn á nagladekkjum í næstu viku

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Það hefur verið óheimilt að keyra um á negldum dekkjum síðan 15. apríl.
Það hefur verið óheimilt að keyra um á negldum dekkjum síðan 15. apríl. Vísir/Róbert
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun hefja að sekta ökumenn sem enn aka um á nagladekkjum eftir veturinn seint í næstu viku.

Óheimilt hefur verið að aka um á nagladekkjum síðan 15. apríl en lögreglan hefur ekki aðhafst gagnvart ökumönnum á negldum dekkjum vegna veðurskilyrða. Það er að breytast.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að nagladekkin séu farin að verða óþarfur búnaður á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi. „Enda sumarið farið að gera vart við sig,“ segir lögreglan.

 „Við hvetjum eigendur ökutækja til að nýta vikuna til að skipta út nagladekkjum ökutækja sinna til að forðast óþarfa kostnað. Þar að auki felst í því yndisauki að losna við glamrið sem fylgir nagladekkjum,“ segir í tilkynningunni.

Nagladekk eru farin að vera óþarfur búnaður hér á höfuðborgarsvæðinu, suðurnesjum og á suðurlandi, enda sumarið farið að...

Posted by Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu on Sunday, May 10, 2015



Fleiri fréttir

Sjá meira


×