Handbolti

Átti aldrei von á því að seinni heimsstyrjöldin myndi hafa áhrif á líf mitt

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Rúnar Kárason.
Rúnar Kárason. vísir/daníel og getty
Landsliðsmaðurinn Rúnar Kárason og fjölskylda hans sofa ekki heima hjá sér í nótt þar sem sprengja fannst í hverfinu þeirra.

Rúnar spilar með þýska félaginu Hannover-Burgdorf og býr í Hannover.

„Það var verið að rífa niður skóla sem er nálægt okkar heimili. Þar undir fannst sprengja frá seinni heimsstyrjöldinni. Þá fer strax ákveðið ferli í gang," segir Rúnar við Vísi en allir sem búa í kílómetra nálægð við sprengjuna þurftu að yfirgefa heimili sitt í kvöld. Þar búa 31 þúsund manns.

„Við erum 50 metrum frá því að vera utan hættusvæðis þannig að við erum frekar óheppin. Það var frekar svekkjandi að þurfa að fara að heiman," segir Rúnar en hann er þó heppinn með að félagi hans í liðinu, Ólafur Guðmundsson, býr ekki á hættusvæðinu og hann fór því með fjölskyldu sína inn til Ólafs og hans fjölskyldu.

„Þau munu hugsa vel um okkur. Við Óli erum á leið þangað núna og ef ég þekki konuna hans Óla rétt þá er búið að baka eitthvað gott fyrir okkur," segir Rúnar léttur.

Rúnar vonast eftir því að geta farið aftur heim til sín á morgun. Hann segir þessa uppákomu vera afar óvænta.

„Aldrei átti ég von á því að seinni heimsstyrjöldin myndi hafa bein áhrif á líf mitt. Þetta er frekar skrítið."

Ekki búa allir svo vel að geta hoppað inn til vina en það er hugsað um þá sem hafa í engin hús að venda.

„Það var verið að setja upp hermannabedda í keppnishöllinni okkar áðan. Ég hefði því getað sofið í Höllinni og mætt ferskur á æfingu. Það er samt talsvert betra að vera heima hjá Óla og fjölskyldu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×