Í umræðunni um áhrif loftslagsbreytinga eigum við til með að einblína á hlutskipti mannskepnunnar, hvernig samfélög mannanna taka breytingum með hækkandi sjávarstöðu, súrnun sjávar og öfgum í veðráttu.
Á síðustu áratugum hafa hundruð rannsókna verið gerðar á afdrifum plöntu- og dýralífs með breytingum á loftslagi.

Þessi sviðsmynd byggir á að meðalhitastig Jarðar hækki um 4 gráður.
Lítil hætta er á stórfelldum útdauða í Norður-Ameríku og Evrópu eða á bilinu 5-6%. Rannsóknarhöfundar benda á að frekari rannsókna sé þörf á dýralífi í Asíu en áætla að hætta á útdauða þar sé í kringum 8-9%. Svartast er útlitið þegar Eyjaálfa og Suður-Ameríka eru annars vegar, 14-23%. Hér er miðað við útdauða fyrir aldarlok.

„Útdauði tegunda er auðvitað ekki nýtt fyrirbæri,“ segir Snorri Baldursson, líffræðingur. „En það sem kveikir í mönnum núna er þessi mikli hraði sem er á þessu, hraði sem getur orðið meiri ef loftslags hlýnar.“
„Núna er þetta fyrst og fremst af mannavöldum, vegna aukins útblásturs koltvísýrings.“
Þegar upplifa tegundir vítt og breitt um heiminn gríðarlegt álag í kjölfar skógarhöggs, mengunar og ofveiði. Rannsóknarhöfundar benda á að áhrif loftslagsbreytinga bætist ofan á þegar erfiða stöðu dýra- og plöntulífs Jarðar.
Þjóðarleiðtogar koma saman í París í desember til að koma á nýju, bindandi samkomulagi um losun gróðurhúsalofttegunda þar sem markmiðið er að halda hlýnun Jarðar innan við tvær gráður (miðað við meðalhitastig fyrir iðnbyltingu).

„Ef að þjóðir heims taka sig saman um að draga verulega úr útstreymi koltvísýrings þá er auðvitað hægt að hægja á þessu ferli. En þú stoppar ekki þennan vagn einn, tveir og þrír. Þetta er eins og olíuflutningaskip, það tekur tíma að draga úr þessari uppsöfnun koltvísýrings.“

Fyrir rúmu ári birtist rannsókn í Science þar sem sýnt var fram á að útrýming plöntu- og dýrategunda hefur aldrei mælst jafn hröð og um þessar mundir. Plöntu- og dýrategundur hverfa nú úr vistkerfi Jarðar þúsund sinnum hraðar í dag en þær gerður áður en mannskepnan fór að láta til sín taka.