Handbolti

Arna Björk líklega úr leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arna Björk (t.v.) leikur væntanlega ekki meira með í úrslitakeppninni.
Arna Björk (t.v.) leikur væntanlega ekki meira með í úrslitakeppninni. vísir/vilhelm
„Hún er ekki brotin en illa tognuð á ökkla,“ sagði Ragnar Hermannsson, annar þjálfari Stjörnunnar, í samtali við Vísi aðspurður um meiðsli Örnu Bjarkar Almarsdóttur sem fór meidd af velli þegar Stjarnan bar sigurorð af Gróttu í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í gær.

Arna, sem leikur í stöðu línumanns, meiddist í byrjun seinni hálfleiks eftir að hafa rekist á samherja. Hún virtist sárþjáð og var flutt af leikstað í sjúkrabíl.

Samkvæmt Ragnari er ekki hægt að útiloka að liðband í ökkla sé slitið. Arna fer í sjúkraþjálfun síðar í dag og þá kemur betur í ljós hversu alvarleg meiðslin eru.

„Mér finnst ekki líklegt að hún taki frekari þátt í úrslitakeppninni,“ sagði Ragnar og bætti við að hún yrði að lágmarki frá í tvær vikur en raunhæft mat væri 6-8 vikur.

Stjarnan vann leikinn í gær, 23-19, og jafnaði þar með metin í einvíginu. Þriðji leikur liðanna verður í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi klukkan 16:00 á sunnudaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×