Tindastóll byrjaði ekki vel í úrslitaeinvíginu á móti KR þegar liðið tapaði með tuttugu stigum á móti Íslandsmeisturunum í DHL-höllinni í gærkvöldi.
Stólarnir voru þarna að spila sinn fyrsta leik í lokaúrslitum í fjórtán ár en urðu enn á ný að sætta sig við stórtap í úrslitaeinvíginu.
KR var komið með tuttugu stiga forskot í hálfleik, 51-31, eftir að hafa unnið annan leikhlutann 29-12 og náði mest 31 stigs forystu í leiknum um miðjan fjórða leikhlutann.
Nú er svo komið að Stólarnir eru búnir að tapa 80 prósent leikja sinna í lokaúrslitum með tuttugu stigum eða meira.
Tapið í gær var nefnilega fjórði skellur liðsins í fimm leikjum því liðið tapaði þrisvar sinnum stórt fyrir Njarðvíkingum í úrslitaeinvíginu fyrir fjórtán árum síðan.
Hér fyrir neðan má sjá alla leiki Tindastóls í lokaúrslitunum en næsti leikur fer fram á Sauðárkróki á fimmtudagskvöldið. Þar reyna Stólarnir að jafna metin og vinna jafnframt sinn fyrsta leik í Síkinu í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn.
Leikir Tindastóls í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta:
Lokaúrslit 2001
Leikur 1: 24 stiga tap fyrir Njarðvík í Njarðvík (89-65)
Leikur 2: 21 stigs tap fyrir Njarðvík á Sauðárkróki (100-79)
Leikur 3: 3 stiga sigur á Njarðvík í Njarðvík (96-93)
Leikur 4: 25 stiga tap fyrir Njarðvík á Sauðárkróki (96-71)
Lokaúrslit 2015
Leikur 1: 20 stiga tap fyrir KR í KR-húsinu (94-74)
Stólarnir hafa steinlegið í fjórum af fimm leikjum sínum í lokaúrslitum
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið
Fleiri fréttir
