Innlent

Vax­andi lægð geng­ur yfir landið

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hvasst verður norðaustan og fer vindur heldur vaxandi.
Hvasst verður norðaustan og fer vindur heldur vaxandi. Vísir/Pjetur
Lægðin sem gengur nú yfir landið er enn vaxandi og er hún heldur vestar undan Suðurlandi, en áður var ætlað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Fyrir vikið verður víða vestan til á landinu hríðarmugga fram á nóttina og skafrenningur, einkum á fjallvegum. Hvasst verður norðaustan og fer vindur heldur vaxandi. Austanlands lagast veður mikið snemma í nótt og síðar meir norðaustanlands. Vestan til á Norðurlandi er hins vegar reiknað með stórhríð í fyrramálið  og vindhraða upp á 15 til 20 metra á sekúndu.

Eins á Ströndum og norðanverðum Vestfjörðum og nær suður í Dali og Borgarfjörð. Færð á vegum er ekki góð en á Suðurlandi er víða skafrenningur, hálka eða hálkublettir. Snjóþekja og skafrenningur er á Hellisheiði og í Þrengslum og óveður og hálkublettir á Kjalarnesi. Þæfingsfærð er á Mosfellsheiði og ófært um Kjósaskarð.

Snjóþekja og skafrenningur er á Holtavörðuheiði og á Bröttubrekku. Þungfært er á Fróðárheiði. Snjóþekja er á Mikladal, Hálfdán og á Kleifaheiði. Þungfært og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði en Þæfingsfærð og skafrenningur á Þröskuldum. Ófært er um Klettsháls.

Hálkublettir og skafrenningur er á Þverárfjalli, Vatnskarði og Stórhríð og hálkublettir á Siglufjarðarvegi. Þæfingsfærð og stórhríð er á Öxnadalsheiði og hálka og  óveður á Mývatnsöræfum. Snjóþekja og éljagangur er á Víkurskarði og þæfingur og stórhríð á Hófaskarði.

Á Austurlandi er ófært og stórhríð á Fjarðarheiði, Oddsskarði og um Vatnsskarð eystra. Þungfært stórhríð er á Jökuldal. Snjókoma og þæfingsfærð er á Fagradal. Þæfingsfærð og stórhríð er frá Höfn í Hvalnes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×