Innlent

Hálka og hálkublettir víða um landið

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Unnið er að því að hreinsa og moka vegi.
Unnið er að því að hreinsa og moka vegi. Vísir/Pjetur
Hálka og hálkublettir eru víða um land í dag, einkum þó á fjallvegum og fáfarnir vegum. Reikna má með hálku á Hellisheiði og í Þrengslum auk þess sem hálka eða hálkublettir eru á köflum á Suðurlandi, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Á Vesturlandi er mikið autt en þó aðeins um hálkubletti. Flughált er í Norðurárdal og snjóþekja á Holtavörðuheiði. Búið er að stinga í gegn á Bröttubrekku en fyrir um klukkustund var verið að breikka. Þá var einnig verið að opna Fróðárheiði.

Verið er að hreinsa og moka vegi á Vestfjörðum en þar eru langleiðir ófærar og getur tekið nokkurn tíma að opna þær, að því er segir í tilkynningu Vegagerðarinnar. Súðavíkurhlíð er opin.

Á Norðurlandi eru vegir óðum að opnast en þar er víðast hvar hálka. Víkurskarð var svo opnað rétt fyrir klukkan níu í morgun. Þæfingsfærð er á Hófaskarði og eins á Dettifossvegi.

Ófært er hins vegar á Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði en verið að moka þar. Annars er góð færð á Austurlandi og autt frá Reyðarfirði með ströndinni suður um, samkvæmt Vegagerðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×