Innlent

Páskaveðrið: Bjart og hlýtt fyrir norðan en leiðinlegast sunnanlands á morgun

Birgir Olgeirsson skrifar
Búast má við suðvestlægum áttum með úrkomu en léttir til fyrir norðan og austan á laugardag.
Búast má við suðvestlægum áttum með úrkomu en léttir til fyrir norðan og austan á laugardag. Vísir/Stefán
Páskaveðrið liggur orðið nokkurn veginn fyrir miðað við spá Veðurstofu Íslands og er útlit fyrir að það verði bjart og hlýtt norðanlands.

„Það verður svolítið úrkomusamt hérna sunnanlands og vestan það er að hlýna þannig að þetta verður mest megnis rigning og svolítill blástur með þessu en bjart og hlýtt fyrir norðan og hlýjast á norðaustanverðu landinu,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

„Það er að koma lægð á morgun með smá snjókomu sunnanlands eða slyddu. Það gæti því orðið svolítið leiðinlegt veður sunnan- og vestanlands seinni partinn á morgun. Það verður áfram eitthvað föstudaginn langa. Leiðinlegasta veðrið verður hérna sunnanlands,“ segir Þorsteinn en gera má ráð fyrir suðvestlægum áttum með úrkomu yfir páskana en léttir til fyrir norðan og austan og á laugardag. „En það getur orðið svolítið hviðótt fyrir norðan.“



Hér má sjá textaspá Veðurstofu Íslands:

Í dag og á morgun:

Norðanátt, 8-13 m/s og él N- og A-lands, en annars léttskýjað. Frost 0 til 8 stig, minnst syðst. Vaxandi A-átt í nótt, 13-20 og slydda eða snjókoma S-til seint á morgun, hvassast við ströndina. Hægara og bjartviðri fyrir norðan til kvölds, en hvessir síðan og þykknar upp. Hiti víða 0 til 5 stig, en vægt frost NA-til.



Á föstudag:

Suðaustan 10-15 m/s og snjókoma eða slydda, en rigning syðst. Hiti kringum frostmark. Suðvestlægari um kvöldið og rigning eða slydda í flestum landshlutum og hiti 1 til 6 stig.

Á laugardag:

Suðvestan 10-15 m/s og rigning eða súld með köflum, en bjartviðri á NA-landi. Hiti 4 til 11 stig, hlýjast NA-lands.

Á sunnudag:

Suðvestan 8-13 m/s og rigning með köflum, en úrkomulítið um landið A-vert. Hiti 2 til 10 stig, hlýjast á A-landi.

Á mánudag og þriðjudag:

Útlit fyrir stífa suðvestlæga og rigningu eða slyddu með köflum, en þurrviðri NA-til. Smám saman kólnandi veður.

Fylgstu með á veðurvef Vísis hér. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×