Innlent

Varað við hálku

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
vísir/stefán
Spáð er hægviðri í kvöld ásamt minnkandi bleytuéljum á láglendi. Eftir að rökkva fer er mjög hætt við myndun glærahálku sunnan- og vestanlands, á Vestfjörðum og vestantil á Norðurlandi. Við þær veðuraðstæður sem nú eru myndast slík ísing gjarnan snögglega á blautum vegunum. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.

Færð og aðstæður

Vegir eru að mestu greiðfærir á Suður- og Suðvesturlandi og einnig á Vesturlandi en hálkublettir eru þó í Borgarfirði, Holtavörðuheiði og í Dölunum en snjóþekja á Bröttubrekku og Laxárdalsheiði.

Greiðfært er að mestu á láglendi á Vestfjörðum en eitthvað um hálkubletti eða snjóþekju á fjallvegum. Þæfingsfærð er frá Bjarnarfirði og norður í Reykjarfjörð á Ströndum. Vatn flæðir yfir þjóðveg 60 í Reykhólasveit og eru vegfarendur beðnir um að sýna aðgát.

Á Norðurlandi eru vegir að mestu greiðfærir en hálkublettir eru á Öxnadalsheiði. Varað er við grjóthruni í Mánárskriðum og eru vegfarendur beðnir um að sýna aðgát.

Greiðfært er á Austur- og Suðausturlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×