Handbolti

Staðfest að Ólafur spilar með KIF | Sjáðu bestu tilþrif hans í Meistaradeildinni

Tómas Þór Þóraðrson skrifar
Ólafur Stefánsson átti tvo ótrúlega leiki í úrslitum Meistaradeildarinnar 2008 og 2009.
Ólafur Stefánsson átti tvo ótrúlega leiki í úrslitum Meistaradeildarinnar 2008 og 2009. vísir/afp
Meistaradeildin í handbolta staðfestir á Facebook-síðu sinni að Ólafur Stefánsson er orðinn löglegur og verður í leikmannahópi KIF Kolding Köbenhavn þegar liðið heimsækir Prvo Zagreb í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar á laugardaginn.

Ólafur lagði skóna á hilluna eftir landsleik gegn Rúmeníu 16. júní 2013, en ákvað að taka slaginn með Danmerkurmeisturunum í tveimur leikjum í Meistaradeildinni vegna meiðslavandræða liðsins.

Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari Íslands, er þjálfari KIF sem á fyrir höndum tvo erfiða leiki gegn króatíska stórliðinu Prvo Zagreb. Fyrri leikurinn fer fram í Zagreb á laugardaginn.

Áhuginn á endurkomu Ólafs er eðlilega mjög mikill þar sem um er að ræða einn besta handboltamann sögunnar, en slegist var um viðtöl við hann eftir fyrstu æfinguna hjá KIF.

Facebook-síða Meistaradeildarinnar fagnar endurkomu Ólafs og setti saman myndband með tilþrifum kappans, en Ólafur hefur auðvitað átt margar magnaðar stundir í Meistaradeildinni.

Hann vann keppnina einu sinni með Magdeburg og þrisvar sinnum með Ciudad Real. Hann var langbesti leikmaður Ciudad þegar liðið vann Meistaradeildina 2008 og 2009, en Ólafur vann seinni leikina í báðum einvígunum nánast upp á sitt einsdæmi.

Hér að neðan má sjá myndbandið sem Meistaradeildin setti saman til að fagna endurkomu Óla Stef.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×