Innlent

Vel á annað hundrað bíla sitja fastir við Gullfoss og Geysi

Bjarki Ármannsson skrifar
Um fimmtíu aðstoðarbeiðnir hafa borist á höfuðborgarsvæðinu.
Um fimmtíu aðstoðarbeiðnir hafa borist á höfuðborgarsvæðinu. Mynd/Jóhann K. Jóhannsson
Talið er að á leið til og frá Gullfossi, Geysi og á Þingvöllum séu að minnsta kosti vel á annað hundrað bíla og rúta fastir vegna veðurs. Um 250 björgunarsveitamenn taka nú þátt í ófærðaraðstoð um land allt.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Flestir hafa þurft aðstoð fyrir austan fjall og í uppsveitum Árnessýslu. Fjöldi bifreiða hefur setið fastur eða verið ekið út af vegi á Hellisheiði, í Þrengslum og á Lyngdalsheiði en að því er segir í tilkynningunni hefur vel gengið að aðstoða fólkið.

Á Suðurnesjum hafa allar björgunarsveitir verið að störfum síðdegis. Þær aðstoða vegfarendur á Reykjanesbraut, ofan Keflavíkur, við Grindavík og Bláa Lónið svo eitthvað sé nefnt. Ekkert ferðaveður hefur verið á svæðinu í dag.

Mikil ófærð hefur verið á höfuðborgarsvæðinu og þar hafa um hundrað björgunarmenn sinnt um fimmtíu aðstoðarbeiðnum, langflestum vegna fastra bíla, oft margra á sama stað.  Verkefnin hafa verið um alla borg en sem fyrr er ástandið verst í efri byggðum.

Ófærð er einnig á Snæfellsnesi. Um tugur bíla, þar af einn flutningabíll, sat fastur við Kolgrafarfjörð og nokkrir til viðbótar innar. Björgunarsveitir frá Akranesi, Borgarnesi og Varmalandi aðstoðuðu bílstjóra í vanda á Mýrum, innan bæjar á Akranesi og víðar. Ekkert ferðaveður og afleitt skyggni var undir Hafnarfjalli, Akrafjalli og á Kjalarnesinu.

Einnig eru fastir bílar á Holtavörðuheiði og Kleifarheiði. Snjóflóð hafa fallið við Stapana við Patreksfjörð og því er verið að skoða hvort öruggara sé að senda Hjálparsveitina Lómfell af Barðaströnd til aðstoðar frekar en Blakk af Patreksfirði. Á Blönduósi var björgunarsveitin kölluð út þegar þakplötur fuku af húsi í bænum.


Tengdar fréttir

Samgöngur lamast: Reykjanesbrautin og Hellisheiðin lokaðar

Búið er að loka veginum um Reykjanesbraut, Hellisheiði, Sandskeið, Þrengsli, Kjalarnes og Mosfellsheiði. Hálka og skafrenningur eru á Reykjanesbraut og á flestum öðrum leiðum á Reykjanesi og versnandi veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×