Innlent

Heilsugæslustöðin í Ólafsvík rýmd vegna snjóþunga í Tvísteinahlíð

Birgir Olgeirsson skrifar
Heilsugæslustöðin í Ólafsvík.
Heilsugæslustöðin í Ólafsvík. Vísir/Aðsend
„Þetta var í raun snemmbær lokun á vinnustaðnum,“ segir Harpa Grímsdóttir, hjá snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands, um lokun á heilsugæslustöðinni í Ólafsvík. Harpa segir lögregluna í Ólafsvík hafa kallað eftir því að heilsugæslustöðinni yrði lokað fyrr en venjulega vegna snjóköggla sem höfðu fallið úr hlíðinni fyrir ofan heilsugæslustöðina.

„Það er því ekki formlegt óvissustig eða hættustig í gildi en það verður bara endurskoðað eftir því sem fram líður,“ segir Harpa.

Hún segir grindur í hlíðinni eiga að varna því að stór fleki geti fallið og valdið tjóni.

„Þessi hús þarna eru varin af þessum varnarvirkjum. Þarna uppi hafði safnast svolítið mikill snjór í dag og þegar hlýnaði byrjuðu að rúlla kögglar úr þessu. Húsið er nálægt hlíðinni og því ekki þægilegt að hafa vinnustaðinn opinn við þannig skilyrði,“ segir Harpa.

Hún segir fjölbýlishús fyrir neðan heilsugæslustöðina en varnarvirkin í hlíðinni eiga líka að verja þau. „Grindurnar virka þannig að þær hindra það að stór fleki geti farið af stað í hlíðinni, öfugt við varnargarða sem eiga að stöðva flóð þegar þau eru farin af stað,“ segir Harpa.

Í mars árið 1995 féll sjóflóð á heilsugæslustöðina og rýmdu 63 íbúar hús sín í kjölfarið. Flóðið fór inn um glugga heilsugæslustöðvarinnar og varð mikið tjón af því. Árið 1984 féll einnig snjóflóð að heilsugæslustöðinni á meðan hún var í byggingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×