Handbolti

Arnór með flottan leik í dramatískum sigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Atlason.
Arnór Atlason. Vísir/Getty
Arnór Atlason átti góðan leik með Saint Raphael í frönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld þegar liðið vann nauman heimasigur á Chambéry.

Saint Raphael vann leikinn 26-25 á sigurmarki á síðustu sekúndum leiksins eftir að liðið hafði unnið fjögurra marka forskot á lokakafla leiksins.

Arnór Atlason var markahæstur hjá Saint Raphael með átta mörk en skoraði þau úr aðeins ellefu skotum. Fimm marka hans komu reyndar af vítapunktinum.

Saint Raphael tryggði sér sigurinn með því að skora þrjú síðustu mörk leiksins og skoraði Arnór eitt þeirra. Sigurmarkið í leiknum gerði hinsvegar Adrien Dipanda eftir stoðsendingu frá Miroslav Jurka.

Saint Raphael var 13-11 yfir í hálfleik en gestirnir í Chambéry unnu upphafskafla seinni hálfleiksins 7-3 og náðu frumkvæðinu í leiknum.

Chambéry náði mest fjögurra marka forskoti, 24-20, en Arnór og félagar gáfust ekki upp og tryggðu sér dramatískan sigur með því að vinna síðustu tíu mínútur leiksins 6-1.

Saint Raphael er í þriðja sæti deildarinnar en Chambéry er í fimmta sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×