Innlent

Þrjú hundruð björgunarsveitarmenn að störfum um land allt

Stefán Árni Pálsson skrifar
Björgunarsveitarmenn að störfum í Salahverfinum í Kópavogi í morgun.
Björgunarsveitarmenn að störfum í Salahverfinum í Kópavogi í morgun. vísir/vilhelm
Hátt í 300 manns frá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar eru nú í óveðursaðstoð víða um land en þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörgu. Mest hefur verið að gera á höfuðborgarsvæðinu þar sem hátt í 200 beiðnir um aðstoð hafa borist í morgun.

Eru öll tiltæk tæki björgunarsveita á svæðinu á ferðinni. Verkefnin eru af ýmsum toga; biðskýli strætisvagna fjúka, rúður brotna, tré rifna upp með rótum, þök fjúka, þakplötur losna og vinnupallar og girðingar falla, svo fátt eitt sé nefnt.

Ástandið hefur verið svipað á Suðurnesjum þar sem 30 verkefni eru þegar komin inn á borð björgunarsveita og fyrir austan fjall og í Árnessýslu eru 18 hópar björgunarmanna á ferðinni til aðstoðar.

Björgunarsveitir eru einnig að störfum á Seyðisfirði, Akureyri, Suðureyri, Hnífsdal, Bolungarvík, Reykholti og Borgarnesi og eru verkefnin af svipuðum toga á öllum stöðum, þ.e. fok af húsum og á lausum munum.

vísir/sigurjón ólason
vísir/sigurjón ólason



Fleiri fréttir

Sjá meira


×