Innlent

Svar Hönnu Birnu rýrara en vonast var eftir

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Ögmundur Jónasson, formaður Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, segir svör Hönnu Birnu Kristjánsdóttur rýrari en hann hefði vonast til. Hann segist ósammála því að lekamálinu sé lokið.

Nefndin hefur í tvígang óskað eftir því að Hanna Birna, fyrrverandi innanríkisráðherra, komi fyrir nefndina til að til að ræða um lekamálið. Hanna Birna hafnaði þeirri beiðni í gær með bréfi þar sem hún segir að hún óski ekki eftir að koma frekari upplýsingum að vegna málsins. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fundaði um málið í morgun.

„Það má segja að svörin sem hún gefur okkur eru kannski rýrari en ég hafði vonast til. En við svo búið munum við einfaldlega setjast yfir málið og ræða með hvaða hætti við skilum af okkur til Alþingis,“ segir Ögmundur.

Hönnu Birnu ber ekki lagaleg skylda til að koma fyrir nefndina. En telur þú að henni beri siðferðisleg eða pólitísk skylda til að gera það?

„Þar hefur bara hver sína skoðun á því máli. Ég hef mínar skoðanir og við höfum öll okkar skoðanir á því. Það er hennar að taka ákvörðun og ég ætla ekki að hafa skoðun á því fyrir hennar hönd,“ segir Ögmundur.

Í svari Hönnu Birnu kemur fram að rannsókn og saksókn málsins hafi lokið með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur yfir fyrrverandi aðstoðarmanni hennar. Þá sé frumkvæðisathugun umboðsmanns Alþingis einnig lokið.

„Það sem við höfum haft til skoðunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eru samskipti hennar við Alþingi, það sem sagt var þar, bæði í okkar nefnd og í sölum Alþingis. Sá þáttur er ekki til lykta leiddur,“ segir Ögmundur.

Tengdar fréttir

Hanna Birna svarar ekki boði nefndar

Ögmundur Jónasson segir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur ekki enn hafa svarað boði stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Segir afskipti Hönnu Birnu óeðlileg

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, segir að samskipti Hönnu Birnu við Stefán Eiríksson, fyrrverandi lögreglustjóra, hafi verið ósamrýmanleg stöðu ráðherra sem yfirstjórnanda lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×