Innlent

Þriðji hver hlýtur varanlegan skaða

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Þriðji hver sem leitar til læknis eftir að hafa horft á sólmyrkva hlýtur varanlegan skaða á augum. Þetta sýna nýlegar rannsóknir. Skólastjórnendur í leik- og grunnskólum borgarinnar koma til með að sjá til þess að börn horfi ekki óvarin í sólina.

Útlit er fyrir að landsmenn geti flestir notið sólmyrkvans á morgun ef að veðurspáin gengur eftir. Fólk þarf að hafa í huga að ekki má horfa beint í sólina heldur þarf að nota viðurkennd hlífðargleraugu. „ Það er stórhættulegt að horfa í sólina án þess að hafa hlífðargleraugu,“ segir Einar Stefánsson yfirlæknir augndeildar Landspítalans.

„ Við horfum ekki í sólina á heiðskírum degi. Hún er svo björt að við fáum hreinlega verk í augað. Hættan er sú að þegar við horfum á sólmyrkvann þá er jú heildarbirtan minni. Vegna þess að tunglið skyggir á sólina að hluta til en svo koma sólargeislarnir meðfram kantinum og ná að brenna sem sagt miðpunktinn í sjónhimnunni á mjög stuttum tíma, sekúndubroti, meðan að við erum að horfa á sólmyrkvann, “ segir Einar.

Skólastjórnendur hafa flestir undirbúið sig undir sólmyrkvann á morgun. Þær upplýsingar fengust frá skóla- og frístundaráði í dag að séð verði til þess að börn í grunn- og leikskólum borgarinnar horfi ekki óvarin til sólar á meðan að sólmyrkvinn gengur yfir.

Einar segir nýlegar rannsóknir frá Bretlandi og Svíþjóð sýna að um þriðji hver þeirra sem leitar til læknis eftir að hafa horft á sólmyrkva hljóta varanlegan skaða á augum.


Tengdar fréttir

Spá morgundagsins lygileg

Veðurfræðingurinn Birta Líf Kristinsdóttir segir útlitið gott fyrir þá sem ætla að sjá sólmyrkvann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×