Handbolti

Gunnar Steinn og félagar höfðu betur í Íslendingaslag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gunnar Steinn lék með íslenska landsliðinu á EM 2014 og HM 2015.
Gunnar Steinn lék með íslenska landsliðinu á EM 2014 og HM 2015. vísir/daníel
Gunnar Steinn Jónsson og félagar hans í Gummersbach unnu góðan sigur á Bergischer í þýsku Bundesligunni í handbolta í kvöld. Lokatölur 31-28, Gummersbach í vil en staðan í hálfleik var 17-15. Gunnar og félagar eru í 8. sæti með 24 stig.

Gunnar skoraði tvö mörk fyrir Gummersbach og átti auk þess eina stoðsendingu. Austurríski hornamaðurinn Raul Santos var eins og svo oft áður markahæstur í liði Gummersbach með sjö mörk.

Arnór Þór Gunnarsson var næstmarkahæstur í liði Bergischer með fimm mörk, þar af þrjú úr vítum. Björgvin Páll Gústavsson varði fimm skot í marki Bergischer sem er í 11. sæti með 22 stig.

Þá vann Göppingen tveggja marka sigur á Minden á útivelli, 24-26, og Wetzlar bar sigurorð af Friesenheim á heimavelli, 32-27.

Í B-deildinni tapaði Íslendingaliðið Emsdetten fyrir 2000 Cuborg á útivelli, 27-25.

Oddur Gretarsson skoraði fjögur mörk fyrir Emsdetten og Ernir Hrafn Arnarson og Anton Rúnarsson tvö hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×