Handbolti

Rúnar skoraði níu í tapi gegn Ljónunum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rúnar Kára í landsleik.
Rúnar Kára í landsleik. Vísir/Vilhelm
Fimmtán íslensk mörk litu dagsins ljós í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag. Rúnar Kárason skoraði flest mörkin eða níu talsins.

Leikur Rhein-Neckar Löven og Hannover var jafn og spennandi framan af og var staðan meðal annars 10-10. Þá tóku ljónin við sér og voru fimm mörkum yfir í hálfleik, 18-13.

Þeir héldu svo uppteknum hætti í síðari hálfleik og unnu að lokum átta marka sigur, 31-23. Með sigrinum fór Löven upp að hlið Kiel á toppnum, en Hannover er í því ellefta.

Alexander Petersson skoraði fimm mörk fyrir Löven, en hann var næst markahæstur. Bjarte Myrhol var markahæstur með sex mörk. Rúnar Kárason lék á alls oddi fyrir Hannover, en hann skoraði níu mörk.

Sigurbergur Sveinsson skoraði eitt mark þegar lið hans Erlangen beið í lægri hlut gegn TBV Lemgo á útivelli. Lokatölur urðu 29-23 eftir að staðan hafi verið 14-9 Lemgo í vil í hálfleik.

Benjamin Herth og Tim Hornke voru markahæstir hjá Lemgo með sex mörk hvor, en Ole Rahmel skoraði átta fyrir Erlangen.

Brösulega gengur hjá Erlangen sem er í næst neðsta sæti deildarinnar. Lemgo er í því sextánda af nítján liðum, en fjögur lið falla um deild.

Botnlið BBM Bietigheim náði ekki að stela stigi af ríkjandi Evrópumeisturum í Flensburg. Þeir höfðu þó forystu í hálfleik, 13-12.

Flensburg setti í fluggír í síðari hálfleik og breyttu stöðunni meðal annars úr 22-20 í 28-20, en lokatölur 31-25 sigur FLensburgar.

Johan Jakobsson skoraði mest fyrir Flensburg eða átta mörk samtals, en Robin Haller gerði einnig átta fyrir Bietigheim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×