Fótbolti

Diego Costa verður í byrjunarliðinu á móti PSG í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Costa.
Diego Costa. Vísir/Getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, ætlar að setja Diego Costa í byrjunarlið Chelsea í kvöld þegar liðið mætir Paris Saint-Germain í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Diego Costa hefur verið að taka út þriggja leikja bann fyrir að stíga á Liverpool-leikmanninn Emre Can í deildabikarleik á dögunum.

Diego Costa missti af þremur deildarleikjum, 1-1 jafntefli á móti Manchester City og svo sigurleikjum á móti Aston Villa (2-1) og Everton (1-0). Loic Rémy byrjaði á móti City og Everton en Didier Drogba var í byrjunarliðinu á móti Villa.

„Já ég læt hann byrja. Það er samt ekki gott fyrir leikmann að spila ekki í þrjá leiki og hann er því ekki í besta leikforminu," sagði Jose Mourinho á blaðamannafundi fyrir leikinn.

Diego Costa hefur skorað 17 mörk í 19 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni en hann á enn eftir að skora sitt fyrsta Meistaradeildarmark fyrir Chelsea.

Diego Costa hefur spilað 5 leiki og alls 307 mínútur í Meistaradeildinni í vetur en þess að ná að skora mark.

Leikur Paris Saint-Germain og Chelsea hefst klukkan 19.45 að íslenskum tíma og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og Stöð 2 Sport HD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×