Fótbolti

Mourinho: Auðvelt að velja á milli Cech og Courtois | Myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Mourinho, stjóri Chelsea, var ánægður með 1-1 jafntefli sinna manna gegn PSG í fyrri leik liðanna í Meistaradeild Evrópu í kvöld.

„Ég er ánægður með úrslitin því við náðum ekki að stjórna leiknum í síðari hálfleik. Þeir voru betri og við náðum ekki að skapa mörg færi,“ sagði Mourinho en viðtalið við hann má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

„Við gerðum það ekki heldur í fyrri hálfleik en þá stjórnuðum við leiknum og spiluðum boltanum virkilega vel. En við vorum að spila við frábært lið og frábæra leikmenn og ég hrósa mínum mönnum fyrir frammistöðuna.“

„Núna gleymum við Meistaradeildinni í einn mánuð og setjum þessi úrslit í vasann á meðan við einbeitum okkur að deildinni og úrslitaleik deildarbikarsins.“

Thibaut Courtois átti frábæran leik fyrir Chelsea í kvöld en hann kom inn fyrir Petr Cech í kvöld sem var góður í leik Chelsea gegn Everton í vikunni.

„Það er í raun auðvelt að ákveða hvor á að spila því sannleikurinn er að þeir eru báðir stórkostlegir markverðir. Ef knattspyrna væri spiluð með tveimur markvörðum og níu útileikmönnum værum við í frábærum málum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×