Innlent

Komið reglulega að Svínafellsjökli í þrjátíu ár en aldrei séð hann svona

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Svínafellsjökull skartaði sínu fegursta á sunnudaginn.
Svínafellsjökull skartaði sínu fegursta á sunnudaginn. Mynd/Börkur Hrólfsson
Leiðsögumaðurinn Börkur Hrólfsson hefur verið í bransanum í þrjátíu ár. Hann stóð hins vegar á gati og var fljótur að rífa upp myndavélina þegar hann kom að Jökulsárlóni og Svínafellsjökli um síðastliðna helgi.

„Það rigndi eld og brennisteini föstudag og laugardag. Svo kom ég þangað á sunnudag. Þessi þrjátíu ár hef ég aldrei séð jöklana og ísinn jafnbláa og þeir voru,“ segir Börkur.

Líkt og myndirnar bera með sér skörtuðu bæði lón og jökull sínu fegursta og liturinn sterkari en alla jafna.

Börkur var í ferð með hóp ferðamanna um Suðurlandið á sunnudaginn þar sem Jökulsárlón og Svínafellsjökull voru í sínu besta formi.Mynd/Börkur Hrólfsson
„Blái liturinn skein svo í gegn,“ segir Börkur og bendir á að myndirnar, sem hann gaf Vísi góðfúslegt leyfi til að birta, væru ekki „fótóshoppaðar“. Allt hafi einfaldlega verið svona blátt.

„Vatnið skolaði greinilega svo vel af ísnum og þá skín blái liturinn í gegn,“ segir Börkur. Hann hafi aldrei séð Svínafellsjökulinn svona fallegan.

„Ef ég hefði ekki verið með fólk í ferð hefði ég verið þarna allan daginn.“

Mynd/Börkur Hrólfsson
Mynd/Börkur Hrólfsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×