Björgunarsveitarmenn og Vegagerðarmenn eru nú að undirbúa að koma um sextíu unglingum úr Fjölbrautarskólanum á Sauðárkróki með rútu þar sem þeir hafa hafist við í alla nótt eftir að þjóðvegurinn norðan Hólmavíkur grófst í sundur vegna vatnavaxta.
Vegna mikils vatnselgs og myrkurs þótti ekki hættandi á björgunaraðgerðir í nótt, en nú er vatnselgurinn farinn að sjatna. Djúpvegur númer 61 grófst líka í sundur við gatnamótin að Drangsnesi og Holtavörðuheiðinni var lokað í gærkvöldi vegna vatnselgs við Búrfellsá í Norðurárdal í Borgarfriði, en norðurleiðin er fær um Bröttubrekku og Laxárdalsheiði.
Þá er Vestfjarðavegur lokaður í Vattarfirði, eftir að aurskriða féll á hann og víðar vatnaði yfir vegi í gærkvöldi og fram á nóttina, þótt þeir rofnuðu ekki alveg.
Uppfært klukkan 16:07
Í fyrri útgáfu þessarar fréttar kom fram að vegurinn sunnan Hólmavíkur hefði farið í sundur og því hefði rútan ekki komist lengra. Vissulega fór vegurinn sunnan Hólmavíkur einnig í sundur en það var hvarf í veginum norðan Hólmavíkur sem olli því að rútan komst ekki til Hólmavíkur.

