Handbolti

West Wien valdi Hannes Jón úr Íslendingaflórunni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hannes Jón Jónsson í leik gegn Kiel fyrir nokkrum árum.
Hannes Jón Jónsson í leik gegn Kiel fyrir nokkrum árum. vísir/getty
Hannes Jón Jónsson, fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta og leikmaður Eisenach í þýsku B-deildinni, verður næsti þjálfari austurríska félagsins West Wien.

Hannes Jón staðfestir þetta við mbl.is í dag, en hann tekur við starfinu af Erlingi Richardssyni í sumar. Erlingur yfirgefur West Wien í lok tímabilsins og tekur við Fücshe Berlín af Degi Sigurðssyni.

West Wien ætlaði sér að ráða íslenskan þjálfara og voru mörg nöfn í pottinum eins og kom fram í viðtali við Konrad Wilczynski, framkvæmdastjóra félagsins, í Frétablaðinu í desember.

„Við munum líta fyrst til Íslands áður en við skoðum aðra þjálfara. Ég þekki marga íslenska leikmenn og þjálfara og hef rætt við þá um marga þjálfara. Ég tel að ég sé með um tíu nöfn íslenskra þjálfara sem koma mögulega til greina í starfið,“ sagði hann.

Wilczynski staðfesti einnig við Fréttablaðið að það kæmi til greina að ráða spilandi þjálfara þó það væri ekki fyrsti kostur.

„Ég útiloka ekki neitt en þeir eru afar fáir sem geta sinnt báðu. Dagur gerði það vel [hjá Bregenz] og ef við finnum einhvern sem kemur til greina munum við skoða það eins og allt annað,“ sagði hann.

Hannes Jón er 34 ára gamall og hefur leikið í atvinnumennsku síðan 2008. Hann á að baki 36 landsleiki fyrir Ísland.

West Wien er komið í fimm liða umspil um austurríska meistaratitilinn en deildin hefst aftur 6. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×