Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska liðsins, hrósaði sínum mönnum fyrir frammistöðuna í sigrinum á Króatíu í leik liðanna um fimmta sætið á HM í handbolta í kvöld.
„Þetta var frábær leikur. Níundi leikurinn á mótinu og algjörlega frábær að mínu mati. Við spiluðum frábæra vörn og góð sókn allan tímann,“ sagði hann í viðtali við Arnar Björnsson sem má sjá hér fyrir ofan.
„Við höfðum stjórn á mörgum hlutum og ég er ánægður með hversu mikinn styrk og karakter mínir menn sýndu í þessum leik.“
„En eftir standa ákveðin vonbrigði eftir leikinn gegn Spáni sem tapaðist með einu marki. Við töpuðum aðeins þessum eina leik af níu sem er frábær árangur en því miður fáum við ekki meira en þetta fimmta sæti.“
„Við gerðum það besta úr þessu sem við gátum. Við náðum að koma til baka og spila frábæran handbolta og mér finnst að við höfum bætt okkur með hverjum leiknum, bæði í vörn og sókn.“
