Reiknað er með að það geti verið hvasst fram yfir hádegi á Kjalarnesi. Sömuleiðis er afar hvasst á sunnanverðu Snæfellsnesi sem og suðaustanlands í norðanátt beggja vegna Hornafjarðar. Þar er reiknað með að hvassast verði yfir miðjan daginn samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.
Hálka er á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum og hálka eða snjóþekja víðast hvar á Suðurlandi. Á Vesturlandi er víða hálka eða snjóþekja en ófært á Fróðárheiði og þæfingsfærð og skafrenningur á Holtavörðuheiði. Flughálka og óveður er á sunnanverðu Snæfellsnesi og á Útnesvegi.

Á Norðurlandi er hálka eða snjóþekja á flestum leiðum og víða skafrenningur og snjókoma í Skagafirði og Eyjafirði. Þæfingsfærð og stórhríð er á Öxnadalsheiði.
Ófært á Fjarðarheiði og Oddskarði og beðið með mokstur vegna veðurs. Þæfingsfærð er á Vopnafjarðarheiði en annars er víða snjóþekja á vegum á Austurlandi og skafrenningur á fjallvegum. Hálka er með suðausturströndinni frá Höfn og áfram suður.