Flateyrarvegur, um Hvilftarströnd í Önundarfirði, er lokaður eftir að snjóflóð féll á hann snemma í morgun. Að sögn Hlyns Snorrasonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Vestfjörðum, féll snjóflóðið á veginn rétt utan við Flateyri en snjóflóðavarnargarður ver byggðina.
Ekki er vitað um stærð flóðsins en Hlynur segir að aðstæður verði kannaðar í birtingu. Þá er vegurinn um Súðavíkurhlíð lokaður eftir að snjóflóð féll á hann í gær.
Þá hefur verið gripið til rýmingar á reit 9 á Ísafirði, Grænagarði, vegna snjóflóðahættu en Hlynur tekur fram að á reit 9 sé ekki íbúabyggð heldur atvinnustarfsemi í tveimur húsum.

