Handbolti

Einkunnir Íslands eftir tapið gegn Svíum: Fimm leikmenn fá einn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Strákarnir stóðu sig ekki vel í dag að mati Gaupa.
Strákarnir stóðu sig ekki vel í dag að mati Gaupa. vísir/eva björk/pjetur
Ísland tapaði fyrir Svíþjóð, 24-16, í fyrsta leik liðsins á HM 2015 í Katar. Reiðarslag í fyrsta leik en tapið sanngjarnt þar sem Svíar voru betri í leiknum.

Eftir hvern leik íslenska liðsins mun Guðjón Guðmundsson, handboltasérfræðingur Stöðvar 2 Sports, gefa leikmönnum og þjálfaranum einkunnir.

Leikmenn og þjálfarar fá einkunn á bilinu 1-6 með umsögn, en neðst í fréttinni má sjá hvað hver einkunn þýðir.



Einkunnir Íslands gegn Svíþjóð:

Björgvin Páll Gústavsson - 4

Leikmaðurinn sem var mest gagnrýndur fyrir mótið stóð fyrir sínu og sýndi gamalkunna takta.

Guðjón Valur Sigurðsson - 1

Spilaði einn sinn slakasta landsleik á stórmóti. Skoraði eitt mark úr sjö skotum.

Aron Pálmarsson - 2

Reyndi en fann ekki takt í sinn leik og hefur oftast leikið betur. Virkaði óöruggur og hitti illa markið.

Snorri Steinn Guðjónsson - 1

Lék í 13 mínútur og gat lítið gert á þeim tíma sem hann fékk.

Alexander Petersson - 1

Átti í miklum erfiðleikum gegn sterkum varnarmönnum sænska liðsins. Sótti mikið inn á miðjuna þar sem hann lenti í hrömmunum á bestu varnarmönnum Svía trekk í trekk.

Ásgeir Örn Hallgrímsson - 2

Verður ekki sakaður um að hafa staðið sig illa á þeim tíma sem hann spilaði. Alltaf sterkur varnarlega en við viljum sjá meira frá honum.

Róbert Gunnarsson - 2

Spilaði ekki mikið í dag. Fékk boltann einu sinni inn á línuna og skoraði úr því fær. Leikmönnum gekk illa að finna hann.

Sverre Andreas Jakobsson - 4

Gamli maðurinn stóð fyrir sínu og vel það. Barði vörnina áfram eins og honum einum var lagið. Ekki að sjá að hann er orðinn 37 ára gamall.

Bjarki Már Gunnarsson - 4

Átti flottan leik. Ungur leikmaður sem er vaxandi og hefur stigið upp í sínum leik en á mikið inni.

Stefán Rafn Sigurmannsson - 3

Skilaði sínu þokkalega en hefði mátt spila meira. Á mikið inni.

Arnór Atlason - 4

Besti sóknarmaður íslenska liðsins. Var áræðinn og reyndi að draga vagninn en náði ekki að draga liðið með sér. Gaman að sjá hann svona ferskan í fyrsta leik.

Sigurbergur Sveinsson - 1

Hafði ekki árangur sem erfiði þegar hann fékk tækifæri í dag frekar en aðrir sóknarmenn liðsins. Erfitt að koma inn í liðið eins og það var að spila.

Arnór Þór Gunnarsson - 3

Skilaði sínu í leiknum. Leikmaður sem alltaf er hægt að treysta og mætti spila meira.

Kári Kristján Kristjánsson - 1

Leið fyrir það eins og Róbert að leikmenn fundu hann ekki inn á línunni. Náði ekki að setja mark sitt á leikinn.

Vignir Svavarsson - 3

Spilaði 17 mínútur í dag og skilaði því sem ætlast var til af honum.

Aron Eðvarðsson -

Kom ekkert við sögu í leiknum.

Aron Kristjánsson - 3

Fær plús fyrir útfærsluna á varnarleik íslenska liðsins. Hann reyndi og gerði breytingar í sókninni sem voru ekki að virka. Sóknarleikur íslenska liðsins er umhugsunarefni fyrir þjálfarateymið.

Útskýring á einkunnum:

6 - Heimsklassa frammistaða

5 - Frábær frammistaða

4 - Góð frammistaða

3 - Sæmileg frammistaða - skilaði sínu

2 - Ekki nógu góð frammistaða

1 - Slakur leikur

Ekki missa af neinu sem gerist á HM. Fylgdu Vísi á Twitter, Facebook og Snapchat (notendanafn:sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×