Handbolti

Ivano Balic leggur skóna á hilluna í vor

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ivano Balic í leik á móti íslenska landsliðinu.
Ivano Balic í leik á móti íslenska landsliðinu. Vísir/AFP
Ivano Balic, leikstjórnandi króatíska landsliðsins til margra ára og fyrrum besti handboltamaður heims, hefur nú gefið það út að hann ætli að setja handboltaskóna sína upp í hillu eftir tímabilið.

Ivano Balic sem er orðinn 35 ára gamall mun þó halda áfram í handboltanum því hann mun í framhaldinu vinna fyrir króatíska handboltasambandið.

Ivano Balic var kosinn besti handboltamaður heims árið 2003 og 2006 en árið 2010 var hann einnig valinn besti handboltamaður allra tíma og hafði þar betur gegn Frakkanum Nikola Karabatic.

Ivano Balic er ekki aðeins þekktur fyrir takta inn á handboltavellinum heldur einnig að geta spilað þrátt fyrir að lifa að mestu á kaffi og sígarettum. Þessi lífstíll hefur þó örugglega séð til þess að kappinn er nú kominn á endastöð.

Ivano Balic spilar nú með þýska liðinu  Wetzlar en hann hefur áður spilað með stórliðum eins og RK Metković, Portland San Antonio, RK Zagreb og Atlético Madrid BM.

Ivano Balic vann tvö gull á stórmótum með króatíu, Ólympíugull 2004 og HM-gull 2003 en króatíska landsliðið vann alls átta verðlaun á stórmótum með hann innanborðs. Hann spilaði sinn síðasta landsleik árið 2012.

Balic náði því meðal annars að vera kosinn besti leikmaðurinn á fimm stórmótum í röð en það voru EM í Slóveníu 2004, ÓL í Aþenu 2004, HM í Túnis 2005, EM í Sviss 2006 og HM í Þýskalandi 2007.

Ivano Balic.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×