Handbolti

Kapphlaup um Katarmiðana

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aron Kristjánsson að stýra íslenska landsliðinu.
Aron Kristjánsson að stýra íslenska landsliðinu. Vísir/AFP
„Þetta var mjög erfitt val. Ég var að kljást við síðustu tvær stöðurnar í svolítinn tíma. Þá þarf maður að skoða heildarpakkann út frá taktísku sjónarmiði,“ segir Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari en hann tilkynnti í gær hvaða 20 leikmenn muni keppa um farseðlana á HM í Katar sem fram fer í næsta mánuði.

Aron má vera með sextán menn í hópnum hjá sér en má gera tvær breytingar meðan á mótinu stendur. Hann segist vera að skoða þann möguleika að taka sautján leikmenn með út enda um langan veg að fara ef það þarf að kalla inn leikmann.

Þórir skilur mína stöðu

Mesta athygli vakti í valinu að hann skyldi skilja hornamanninn Þóri Ólafsson eftir heima en Þórir hefur átt mjög farsælan landsliðsferil.

„Þetta er vísir að ákveðnum kynslóðaskiptum hjá okkur en Þórir er til í að hjálpa okkur áfram og vera til taks ef á þarf að halda. Auðvitað var samt mjög erfitt að tjá honum tíðindin. Hann er keppnismaður en skilur samt mína stöðu og veit um hvað málið snýst. Við ræddum þetta fyrst síðasta sumar. Það er þessi fína lína, hvar og hvenær á að skipta út. Bæði Arnór Þór og Guðmundur Árni hafa spilað vel og svo eigum við Ásgeir Örn og Alex sem geta líka leyst hornið,“ segir Aron.

Leitað að arftaka Sverres

Ólafur Gústafsson gefur ekki kost á sér í hópinn vegna meiðsla og svo er enn óvissa með þátttöku Sverres Jakobssonar. Þar af leiðandi fær Tandri Már Konráðsson tækifæri í hópnum að þessu sinni.

„Ólafur átti að fá aukið vægi í vörninni hjá mér enda verið að spila vel í vörninni í Danmörku. Við vitum að það styttist í að það þurfi að finna mann fyrir Sverre. Valið á Tandra er í ljósi þess að við erum að reyna að finna mann sem getur staðið í miðju varnar og líka borið upp boltann. Tandri er sterkur í því. Hugmyndin með 20 manna hópinn er líka að koma mönnum eins og Tandra nær landsliðinu og kynnast því sem við erum að gera. Við erum líka með fimm æfingaleiki þannig að okkur vantar mannskap og við verðum að passa upp á álagið. Það verður gaman að sjá hvernig Tandri kemur út úr þessu.“

xx
Ólafur þarf að taka næsta skref

Ólafur Andrés Guðmundsson kemst ekki í hópinn að þessu sinni en hann hefur tekið þátt á stórmótum áður. Nú síðast á EM í Danmörku fyrir tæpu ári.

„Hann hefur verið meiddur undanfarið. Ólafur hefur verið svolítið óstöðugur með landsliðinu. Hann hefur átt ágætis innkomur og í öðrum leikjum hefur vantað upp á. Hann þarf kannski að fá tíma til þess að taka næsta skref á sínum ferli í þýsku úrvalsdeildinni. Þá gæti hann komið sterkur aftur inn í landsliðið. Ég er alls ekki búinn að afskrifa hann.“

Það verður engin barátta um markvarðastöðurnar fyrir HM. Aron velur aðeins þá Björgvin Pál og Aron Rafn og þeir fara því til Katar nema þeir meiðist.

„Ég tel að þetta séu þeir markmenn sem eru að standa sig best núna. Þeir hafa unnið vel saman og markvarslan á síðustu tveimur mótum með þá tvo hefur gefið góða raun. Þeir hafa náð að vega hvor annan ágætlega upp,“ segir landsliðsþjálfarinn.

Unnið í varnarleiknum

Liðið kemur saman til æfinga þann 30. desember og spilar svo tvo æfingaleiki við Þjóðverja þann 4. og 5. janúar. Liðið tekur svo þátt á æfingamóti í Danmörku frá 9. til 11. janúar. Lokahópurinn verður svo tilkynntur í kjölfarið.

„Ég gæti verið búinn að skera aðeins niður hópinn fyrir þetta mót. Svo er spurning hvort ég taki sextán eða sautján með út. Það veltur líklega á ástandinu á liðinu. Undirbúningur verður annars með frekar hefðbundnu sniði en við munum leggja mikla áherslu á varnarleikinn. Við ætlum að koma með nýtt varnarafbrigði sem við gætum beitt að hluta til í leikjum,“ segir Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×