Handbolti

Kretzschmar hrósar Degi í hástert

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur fékk hrós frá gamalli landsliðskempu í Þýskalandi.
Dagur fékk hrós frá gamalli landsliðskempu í Þýskalandi. fréttablaðið/getty
Stefan Kretzschmar, fyrrverandi landsliðsmaður Þýskalands, lofar mjög starf Dags Sigurðssonar með þýska landsliðinu nú í upphafi undankeppni EM 2015. Hann segir sjálfstraust liðsins mun meira og að 28-24 sigur liðsins á Austurríki á dögunum hafa verið stórt skref fram á við eftir vandræðagang landsliðsins síðustu árin.

„Dagur herti þær skrúfur sem þurfti að herða og byggði upp nýjan liðsanda,“ skrifaði Kretzschmar í pistli sem birtist á vefsíðu Sport1-sjónvarpsstöðvarinnar.

„Loksins sýndi liðið okkar að það hefur taugar til að vinna mikilvægan leik. Liðið hefur ekki verið sannfærandi á slíkum stundum á síðustu árum. Leikmenn voru tilbúnir að taka leikinn í sínar hendur og sýndu allt það sem einkennir gott lið. Svo virðist sem það sé á réttri leið.“

Þýskaland missti af Ólympíuleikunum 2012 sem og Evrópumeistaramótinu 2014. Það féll einnig úr leik í undankeppni HM 2015 en komst inn eftir að Alþjóðahandknattleikssambandið, IHF, ákvað að afturkalla keppnisrétt Eyjaálfu líkt og frægt er orðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×