Tónlist

Spiluðu fyrir einn gest og hund

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Eva hélt tónleika fyrir einn gest og hund í fyrra.
Eva hélt tónleika fyrir einn gest og hund í fyrra. MYND/Úr einkasafni
„Við eigum eftir að kaupa kassettur og umslög, eða hvað það er sem þarf fyrir svona útgáfubissness. Kannski innsigli,“ segir Sigríður Eir Zophoníasardóttir, önnur tveggja sem skipa hljómsveitina Evu, sem var að ljúka við að taka upp sína fyrstu breiðskífu.

Hljómsveitin vakti athygli fyrir tónlistina í uppsetningu Leikfélags Akureyrar á Gullna hliðinu á liðnu leikári. Sýningin verður sýnd í Borgarleikhúsinu í vetur.

„Við eigum eftir að láta hljóðblanda, mastera, fjölfalda og loks gefa út. Það vantar örlítið upp á að þetta hafist, og við höfum efnt til áheitasöfnunar í gegnum Karolina Fund til að klára málið.“

„Í tilefni af útgáfunni ætlum við að halda pop-up tónleika á ófyrirsjáanlegum stöðum í hverri viku þar til verkefnið er fjármagnað. Við héldum einkatónleika með hálftíma fyrirvara úti á Gróttu síðasta sumar og fannst það svo gaman að við vildum taka þetta lengra. Það kom reyndar bara einn áhorfandi og einn hundur og ég held þau hafi bara óvart átt leið hjá. Það var eitthvað magnað við það að spila heila tónleika fyrir nánast engan nema sólina og sjóinn.“

Tónleikastaðir í sigtinu núna eru stigagangar fjölbýlishúsa, strætóskýli, heimili ókunnugra, umferðareyjar og undirgöng.

„Tillögum að fleiri stöðum má koma á framfæri í gegnum Facebook-síðu hljómsveitarinnar,“ segir Sigríður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×