Samkvæmt heimildum blaðsins hafði Jakob Frímann Magnússon, einn skipuleggjenda Secret Solstice-hátíðarinnar, veg og vanda af heimsókn umræddra visindamanna en sjálfur verst hann allra fregna af málinu.
Heimildir Fréttablaðsins herma að umrætt tæki notist við svokallaða skýjasáningartækni (cloud seeding). Tæknin kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1946 í Bandaríkjunum en markmið tækninnar er að hafa áhrif á úrkomu.

Kristján Óttar Klausen veðureftirlitsmaður segir vanta mælingar til að segja til um hvort tæknin virki.
„Annaðhvort vill fólk að þetta sé satt eða að þetta sé hljóðlát bylting en aðeins mælingar skera úr um þetta.“
Kristján nefnir annað tæki sem heitir „cloudbuster“ sem á að gera sama gagn og skýjasáning. „Það eru engin vel þekkt áhrif þarna á bak við og tækið er ekki viðurkennt í vísindaheiminum. Það væri þó gaman að sjá virkni tækisins en hana verður að sanna með mælingum, orðrómur er ekki nóg,“ segir Kristján.
Ef veðurbreytingatækið sem flutt var hingað til lands virkar gæti það hentað vel í kvikmyndabransann, en mikil uppsveifla hefur verið í honum síðustu ár. Veðrið leikur þó alltaf stórt hlutverk enda allra veðra von á landinu og oft frestast tökur vegna þess.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er um að ræða tæki sem er um það bil sextíu sentímetrar að lengd, þrjátíu sentímetrar að breidd og þrjátíu sentímetra hátt og notast við sérstaka kristalla. Inn í tækinu er sérstök spóla sem býr til krafta.
Tegundir skýja og vinda hafa áhrif á virkni tækisins en talið er að það búi meðal annars til hæð undir lægð og færi lægðarskilin fjær jörðu.
Tækið á að vera umhverfisvænt og á ekki að skaða umhverfið að neinu leyti.