Nú slær í baksegl popúlismans Þorsteinn Pálsson skrifar 1. febrúar 2014 06:00 Loforðið um afnám verðtryggingar var einn af mörgum ávöxtum hins nýja þjóðernispopúlisma sem heillaði marga í síðustu kosningum. Nú segir meirihluti nefndar forsætisráðherra að efndir á loforðinu myndu veikja þjóðarbúskapinn og íþyngja skuldurum. Einn fulltrúi í nefndinni vill þó efna loforðið. Forsætisráðherra hefur boðað að ríkisstjórnin ætli að taka jafn mikið tillit til hans og meirihlutans. Jafnframt lofar hann hliðarráðstöfunum til að breytingin bitni ekki með þeim þunga á skuldurum er við blasir. Þverstæðan í þessu máli er sú að markmiðið um að koma verðtryggingunni fyrir kattarnef er afar mikilvægt en það næst ekki með lögbanni án þess að valda einstaklingum, fyrirtækjum og þjóðarbúinu í heild miklum skaða. Í stað þess að beygja sig fyrir þeirri staðreynd er strax komið með loforð um að skaðann eigi að leiðrétta með nýjum töfrabrögðum millifærsluhagkerfisins. Ástæðan fyrir því að svo fljótt slær í baksegl þjóðernispopúlismans er sú að leiðin að markmiðinu liggur í gagnstæða átt. Hún felst í því að tryggja stöðugleika. Þjóðernishlið popúlismans er hins vegar Þrándur í Götu á vegferðinni þangað. Það er klípa ríkisstjórnarinnar og fyrir þá sök boðar hún nú millifærslur til að deyfa afleiðingar misráðinna áforma.Siðræn rök fremur en hagræn Verðtryggingin var lögfest 1979 í tíð ríkisstjórnar undir forystu Framsóknarflokksins. Þetta var hins vegar mál Alþýðuflokksins sem sat í þeirri stjórn. Vilmundur Gylfason var helsti baráttumaðurinn. Honum voru vel ljósar efnahagslegar afleiðingar þeirrar peningastefnu sem þá var fylgt. En hann beitti hins vegar meir siðferðilegum sjónarmiðum til að fá áheyrn. Menn höfðu lengi látið hagfræðilegu rökin fara inn um annað eyrað og út um hitt. Vilmundur benti aftur á móti, og með nokkrum rétti, á þá spillingu sem því gæti fylgt þegar pólitískt skipaðir bankastjórar veittu lán sem ekki þurfti að greiða til baka nema að hluta. Það reyndist erfiðara fyrir stjórnmálamenn að loka eyrunum fyrir þessum málflutningi. Seðlabankinn hafði ekki á þeim tíma sama sjálfstæði og nú. Vaxtaákvarðanir voru í reynd teknar á vettvangi stjórnmálanna. Þær réðust af pólitískum lögmálum en ekki efnahagslegum. Að því leyti er auðveldara nú að banna verðtryggingu. Lögmál markaðarins sjá um að keyra upp vextina ef aðstæður eru þannig. En þá komum við aftur að því sem meirihlutinn í nefnd forsætisráðherra sagði: Við það þyngist greiðslubyrði skuldara. En pólitíski veikleikinn er enn til staðar. Það kemur best fram í ummælum forsætisráðherra þegar hann segir að lausnin felist í því að leiðrétta efnahagslögmálin með pólitískum hliðarráðstöfunum. Raunverulegar aðstæður í þjóðarbúskapnum mega ekki endurspeglast í fjármagnskostnaðinum fremur en á verðbólgutímanum. Þess vegna þarf nýjar millifærslur. Hver á að borga þann brúsa?Fullveldi fyrir stjórnmálin eða fólkið? Það leiðir af þjóðernishlið popúlismans að hafna þátttöku í alþjóðlegu myntsamstarfi því þá fórni menn fullveldisráðum yfir krónunni. Ýmsir sem ekki stunda efnahagslegan popúlisma sjá reyndar krónufullveldið í þessu sama ljósi. Vandinn er sá að í opnu alþjóðlegu hagkerfi með frjálsum viðskiptum er það markaðurinn sem ræður gengi krónunnar en ekki stjórnvöld. Eina tæki þeirra til að beita fullveldisyfirráðunum eru höftin. Afleiðingar þeirra birtast launafólki í yfirvofandi hættu á eignabólu og bráðri hlutabréfabóluvá. Margir segja að við þessar aðstæður sé best að bæta launabólunni við. Tilfinningarnar geta leitt menn að þeirri niðurstöðu. Skynsemin og reynslan segir annað. Hættan er að raunsæið víki ef ríkisstjórnin kynnir ekki fljótt til sögunnar trúverðuga stefnu í peningamálum. Spurningarnar eru þessar: Á fullveldið að þjóna stjórnunargleði þeirra sem fara með peningamálin eða hagsmunum almennings og fyrirtækja í landinu? Blasir ekki við að almannahagsmunum er betur borgið með því að nota fullveldisréttinn til að tryggja launafólki gjaldgenga mynt? Mynt sem ekki þarf að stjórna með höftum og ekki kallar á verðtryggingu eða millifærslur til að fela raunverulegan fjármagnskostnað. Nýja verðtryggingarskýrslan opnar góða sýn á þetta stærsta viðfangsefni íslenskra stjórnmála í dag. Alþjóðlegu myntsamstarfi fylgja vissulega margs konar vandamál. En álitaefnið er hvort þau eru ekki léttvægari en hin sem við horfumst í augu við. Nú reynir á hugsjónir í pólitík. Valið er um tvennt: Annars vegar óskert fullveldi í peningamálum með höftum og millifærslum. Hins vegar að nýta fullveldið í samvinnu við aðra og fá frelsi til að eiga kost á varanlegum stöðugleika og möguleika á að skapa ný tækifæri. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun Skilaboð hátíðarinnar Skúli S. Ólafsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun
Loforðið um afnám verðtryggingar var einn af mörgum ávöxtum hins nýja þjóðernispopúlisma sem heillaði marga í síðustu kosningum. Nú segir meirihluti nefndar forsætisráðherra að efndir á loforðinu myndu veikja þjóðarbúskapinn og íþyngja skuldurum. Einn fulltrúi í nefndinni vill þó efna loforðið. Forsætisráðherra hefur boðað að ríkisstjórnin ætli að taka jafn mikið tillit til hans og meirihlutans. Jafnframt lofar hann hliðarráðstöfunum til að breytingin bitni ekki með þeim þunga á skuldurum er við blasir. Þverstæðan í þessu máli er sú að markmiðið um að koma verðtryggingunni fyrir kattarnef er afar mikilvægt en það næst ekki með lögbanni án þess að valda einstaklingum, fyrirtækjum og þjóðarbúinu í heild miklum skaða. Í stað þess að beygja sig fyrir þeirri staðreynd er strax komið með loforð um að skaðann eigi að leiðrétta með nýjum töfrabrögðum millifærsluhagkerfisins. Ástæðan fyrir því að svo fljótt slær í baksegl þjóðernispopúlismans er sú að leiðin að markmiðinu liggur í gagnstæða átt. Hún felst í því að tryggja stöðugleika. Þjóðernishlið popúlismans er hins vegar Þrándur í Götu á vegferðinni þangað. Það er klípa ríkisstjórnarinnar og fyrir þá sök boðar hún nú millifærslur til að deyfa afleiðingar misráðinna áforma.Siðræn rök fremur en hagræn Verðtryggingin var lögfest 1979 í tíð ríkisstjórnar undir forystu Framsóknarflokksins. Þetta var hins vegar mál Alþýðuflokksins sem sat í þeirri stjórn. Vilmundur Gylfason var helsti baráttumaðurinn. Honum voru vel ljósar efnahagslegar afleiðingar þeirrar peningastefnu sem þá var fylgt. En hann beitti hins vegar meir siðferðilegum sjónarmiðum til að fá áheyrn. Menn höfðu lengi látið hagfræðilegu rökin fara inn um annað eyrað og út um hitt. Vilmundur benti aftur á móti, og með nokkrum rétti, á þá spillingu sem því gæti fylgt þegar pólitískt skipaðir bankastjórar veittu lán sem ekki þurfti að greiða til baka nema að hluta. Það reyndist erfiðara fyrir stjórnmálamenn að loka eyrunum fyrir þessum málflutningi. Seðlabankinn hafði ekki á þeim tíma sama sjálfstæði og nú. Vaxtaákvarðanir voru í reynd teknar á vettvangi stjórnmálanna. Þær réðust af pólitískum lögmálum en ekki efnahagslegum. Að því leyti er auðveldara nú að banna verðtryggingu. Lögmál markaðarins sjá um að keyra upp vextina ef aðstæður eru þannig. En þá komum við aftur að því sem meirihlutinn í nefnd forsætisráðherra sagði: Við það þyngist greiðslubyrði skuldara. En pólitíski veikleikinn er enn til staðar. Það kemur best fram í ummælum forsætisráðherra þegar hann segir að lausnin felist í því að leiðrétta efnahagslögmálin með pólitískum hliðarráðstöfunum. Raunverulegar aðstæður í þjóðarbúskapnum mega ekki endurspeglast í fjármagnskostnaðinum fremur en á verðbólgutímanum. Þess vegna þarf nýjar millifærslur. Hver á að borga þann brúsa?Fullveldi fyrir stjórnmálin eða fólkið? Það leiðir af þjóðernishlið popúlismans að hafna þátttöku í alþjóðlegu myntsamstarfi því þá fórni menn fullveldisráðum yfir krónunni. Ýmsir sem ekki stunda efnahagslegan popúlisma sjá reyndar krónufullveldið í þessu sama ljósi. Vandinn er sá að í opnu alþjóðlegu hagkerfi með frjálsum viðskiptum er það markaðurinn sem ræður gengi krónunnar en ekki stjórnvöld. Eina tæki þeirra til að beita fullveldisyfirráðunum eru höftin. Afleiðingar þeirra birtast launafólki í yfirvofandi hættu á eignabólu og bráðri hlutabréfabóluvá. Margir segja að við þessar aðstæður sé best að bæta launabólunni við. Tilfinningarnar geta leitt menn að þeirri niðurstöðu. Skynsemin og reynslan segir annað. Hættan er að raunsæið víki ef ríkisstjórnin kynnir ekki fljótt til sögunnar trúverðuga stefnu í peningamálum. Spurningarnar eru þessar: Á fullveldið að þjóna stjórnunargleði þeirra sem fara með peningamálin eða hagsmunum almennings og fyrirtækja í landinu? Blasir ekki við að almannahagsmunum er betur borgið með því að nota fullveldisréttinn til að tryggja launafólki gjaldgenga mynt? Mynt sem ekki þarf að stjórna með höftum og ekki kallar á verðtryggingu eða millifærslur til að fela raunverulegan fjármagnskostnað. Nýja verðtryggingarskýrslan opnar góða sýn á þetta stærsta viðfangsefni íslenskra stjórnmála í dag. Alþjóðlegu myntsamstarfi fylgja vissulega margs konar vandamál. En álitaefnið er hvort þau eru ekki léttvægari en hin sem við horfumst í augu við. Nú reynir á hugsjónir í pólitík. Valið er um tvennt: Annars vegar óskert fullveldi í peningamálum með höftum og millifærslum. Hins vegar að nýta fullveldið í samvinnu við aðra og fá frelsi til að eiga kost á varanlegum stöðugleika og möguleika á að skapa ný tækifæri.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun