Handbolti

Pétur sjúkraþjálfari: Strákarnir eru rosalega skemmtilegir

Henry Birgir Gunnarsson í Herning skrifar
Pétur Gunnarsson og Guðjón Valur Sigurðsson í upphitunarboltanum.
Pétur Gunnarsson og Guðjón Valur Sigurðsson í upphitunarboltanum. Vísir/Daníel
Sjúkraþjálfararnir Pétur Örn Gunnarsson og Elís Þór Rafnsson hafa haft í nógu að snúast á EM enda mannskapurinn ansi laskaður.

„Það hefur aldrei verið svona mikið að gera hjá okkur. Við erum sem betur fer tveir núna og vinnan gengur betur fyrir vikið,“ segir Pétur Örn en hann hefur verið með landsliðinu síðan á EM árið 2008.

„Dagarnir hjá okkur geta verið langir. Við höfum ekki oft þurft að vinna eftir miðnætti sem betur fer. En við erum mikið að allan daginn. Við fáum frí meðan strákarnir funda en þetta er samt rosalega gaman. Það er ekki hægt að neita því enda strákarnir rosalega skemmtilegir og gaman að vinna með þeim. Þetta er allt þess virði enda erum við ekki hérna út af peningunum. Það er alveg klárt.“

Pétur Örn er ávallt léttur og hress. Hefur tekið virkan þátt í fótboltanum og síðan verið aukamaður þegar kastað er á milli.

„Ég er mikill handboltaáhugamaður þó að ég hafi aldrei æft handbolta. Það er mjög gaman að fá að vera með á þessum æfingum. Ég fékk ekkert að vera með í fótboltanum fyrst og var ekki kátur með það. Ég hafði aldrei kastað handbolta af viti fyrr en núna með Guðjóni Val. Það gengur misjafnlega vel hjá mér,“ sagði Pétur og hló við.

Hann segir laskaða leikmenn vera að koma til og er ánægður með hvernig hefur gengið hjá honum og Elís að halda mönnum gangandi á mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×