Lítilsvirðing Þorsteinn Pálsson skrifar 18. janúar 2014 06:00 Nokkuð var gert úr því í byrjun vikunnar að forsætisráðherra hefði skilgreint Evrópuumræðuna upp á nýtt þegar hann skipti mönnum í aðildarandstæðinga og viðræðusinna. Þó að skilgreiningin sé nokkur einföldun er hún ekki alveg út í hött. En þegar reynt er að gera hana að nýmæli bendir það til að aðildarandstæðingar hopi nú í röksemdafærslunni. Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur, sagði fyrir nokkrum árum í sjónvarpsviðtali við Boga Ágústsson að þjóðir ættu ekki að sækja um aðild að Evrópusambandinu nema hjartað slægi þannig. Þetta var hollt ráð. Margir stuðningsmenn þjóðaratkvæðis um framhald viðræðna hafa af heilu hjarta jafn ríka sannfæringu fyrir aðild að Evrópusambandinu eins og að NATO. Aðrir vilja ekki lýsa sannfæringu fyrr en þeir sjá endanlegan aðildarsamning. Allir eiga það þó sammerkt að geta ekki fyrirfram skuldbundið sig til að greiða atkvæði með niðurstöðunni án þess að vita nákvæmlega hver hún er. Í því ljósi eru báðir þessir hópar ekki annað og meira en viðræðusinnar á þessu stigi málsins. Aðalatriðið er að það er ómálefnalegt af forsætisráðherra að hafna þjóðaratkvæði um framhald aðildarviðræðnanna á þeirri forsendu að menn eru ekki reiðubúnir að taka endanlega afstöðu til aðildar fyrr en samningur liggur fyrir. Aukheldur er verið að gera lítið úr málefnalegu og rökréttu viðhorfi mikils meirihluta þjóðarinnar sem stendur að baki þessari ósk í skoðanakönnunum. Málflutningur af þessu tagi er ótvírætt til marks um að farið er að veikjast um málefnalegar varnir þeirra sem vilja koma í veg fyrir að þetta kosningaloforð forystu Sjálfstæðisflokksins verði efnt. Reyndar hefur meirihlutastuðningurinn við það loforð farið vaxandi síðan núverandi utanríkisráðherra byrjaði að tala gegn því.Var lofað upp í ermina á næstu stjórn? Annað haldreipi þeirra ráðherra, sem bregða vilja fæti fyrir efndir á loforðinu, er að fráleitt sé að ætla ríkisstjórn, sem er á móti aðild, að halda viðræðum áfram fari svo að þjóðin segi já. Þegar loforðið var gefið fyrir kosningar var enginn fyrirvari af þessu tagi orðaður. Ætti fyrirvarinn að gilda hefði á þeim tímapunkti þurft að segja skýrt að ekki væri unnt að efna loforðið kæmist flokkurinn í ríkisstjórn! Í þessu ljósi er nærlægast að líta svo á að loforðið um þjóðaratkvæði hafi verið gefið fyrir hönd annarra flokka sem síðar tækju við stjórnartaumunum. Áttu menn virkilega að skilja þetta sem loforð upp í ermina á næstu ríkisstjórn? Allir sjá hvers kyns hringavitleysa það væri. Þessi spurning klýfur stuðningslið flestra flokka. Þegar forsætisráðherra og utanríkisráðherra hafna þjóðaratkvæði um hana eru þeir í raun að senda þau skilaboð til kjósenda Sjálfstæðisflokksins og eigin flokks, sem vilja efndir á loforðinu, að þeir verði að kjósa aðra flokka eða stofna nýja til að koma málinu fram. Sjálfsagt er ekki óhugsandi að mál skipist þannig. En hætt er við að hræringar af því tagi myndu veikja stjórnarfarið miklu meir og til lengri tíma en þjóðaratkvæði sem er einfaldari leið og veldur minni röskun. Skynsamlegt er að velja aðferð til að komast að niðurstöðu í þessu máli sem líkleg er til að valda sem minnstri sundrungu. Það á ekki síst við á erfiðum tímum eins og við lifum nú.Viljum við ekki taka þátt í framþróun? Utanríkisráðherra færir gjarnan þau rök fyrir því að ekki eigi að efna þjóðaratkvæðagreiðsluloforð forystu Sjálfstæðisflokksins sakir þess að Evrópusambandið hafi breyst síðan aðildarumsóknin var samþykkt á Alþingi. Af þessu má draga þá ályktun að ráðherrann vilji ekki að Ísland taki þátt í alþjóðasamstarfi sem þróast og tekur breytingum. Hitt er þó líklegra að þessi málsástæða sé lítt hugsuð og því fremur merki um skort á haldbærum rökum. Alþjóðasamtök sem staðna og breytast ekki í samræmi við nýjar kröfur og þarfir bera dauðann í sér. Nýjar reglur sem eru að mótast innan Evrópusambandsins um fjármálastöðugleika og eftirlit með fjármálastofnunum eru gott dæmi um nauðsynlega og þarfa aðlögun að nýjum aðstæðum. Frjáls viðskipti á þessu sviði kalla á ríkara alþjóðlegt samstarf. Nýjar hugmyndir Evrópusambandsins um ríkisfjármálastefnu falla einnig eins og flís við brot að kenningum Sjálfstæðisflokksins sem nú eru í framkvæmd. Þær eru því styrkur fremur en hindrun. Breytingarnar sem eru á döfinni eru beinlínis rök fyrir aðild Íslands. Hvernig eigum við að tryggja frjáls fjármálaviðskipti og stöðugleika á ný án þátttöku? Fátt bendir til að það sé hægt. Sú nýja hugsun um Evrópusambandið sem ráðherrar breska Íhaldsflokksins hafa viðrað gerir það síðan um sumt enn áhugaverðara fyrir Ísland að láta reyna á aðildarsamninga til þrautar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Er píparinn þinn skattsvikari? Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Kæra unga móðir Jóna Þórey Pétursdóttir Skoðun Kosningar og ,ehf gatið‘ Róbert Farestveit Skoðun Verði þitt val, svo á jörðu sem á himni Halldóra Lillý Jóhannsdóttir Skoðun Grípum tækifærin og sköpum bjartari framtíð Ísak Leon Júlíusson Skoðun Halldór 9.11.2024 Halldór Það sem má alls ekki tala um... Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Frelsi til að búa þar sem þú vilt Sæunn Gísladóttir Skoðun Öryggis annarra vegna… Ingunn Björnsdóttir Skoðun
Nokkuð var gert úr því í byrjun vikunnar að forsætisráðherra hefði skilgreint Evrópuumræðuna upp á nýtt þegar hann skipti mönnum í aðildarandstæðinga og viðræðusinna. Þó að skilgreiningin sé nokkur einföldun er hún ekki alveg út í hött. En þegar reynt er að gera hana að nýmæli bendir það til að aðildarandstæðingar hopi nú í röksemdafærslunni. Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur, sagði fyrir nokkrum árum í sjónvarpsviðtali við Boga Ágústsson að þjóðir ættu ekki að sækja um aðild að Evrópusambandinu nema hjartað slægi þannig. Þetta var hollt ráð. Margir stuðningsmenn þjóðaratkvæðis um framhald viðræðna hafa af heilu hjarta jafn ríka sannfæringu fyrir aðild að Evrópusambandinu eins og að NATO. Aðrir vilja ekki lýsa sannfæringu fyrr en þeir sjá endanlegan aðildarsamning. Allir eiga það þó sammerkt að geta ekki fyrirfram skuldbundið sig til að greiða atkvæði með niðurstöðunni án þess að vita nákvæmlega hver hún er. Í því ljósi eru báðir þessir hópar ekki annað og meira en viðræðusinnar á þessu stigi málsins. Aðalatriðið er að það er ómálefnalegt af forsætisráðherra að hafna þjóðaratkvæði um framhald aðildarviðræðnanna á þeirri forsendu að menn eru ekki reiðubúnir að taka endanlega afstöðu til aðildar fyrr en samningur liggur fyrir. Aukheldur er verið að gera lítið úr málefnalegu og rökréttu viðhorfi mikils meirihluta þjóðarinnar sem stendur að baki þessari ósk í skoðanakönnunum. Málflutningur af þessu tagi er ótvírætt til marks um að farið er að veikjast um málefnalegar varnir þeirra sem vilja koma í veg fyrir að þetta kosningaloforð forystu Sjálfstæðisflokksins verði efnt. Reyndar hefur meirihlutastuðningurinn við það loforð farið vaxandi síðan núverandi utanríkisráðherra byrjaði að tala gegn því.Var lofað upp í ermina á næstu stjórn? Annað haldreipi þeirra ráðherra, sem bregða vilja fæti fyrir efndir á loforðinu, er að fráleitt sé að ætla ríkisstjórn, sem er á móti aðild, að halda viðræðum áfram fari svo að þjóðin segi já. Þegar loforðið var gefið fyrir kosningar var enginn fyrirvari af þessu tagi orðaður. Ætti fyrirvarinn að gilda hefði á þeim tímapunkti þurft að segja skýrt að ekki væri unnt að efna loforðið kæmist flokkurinn í ríkisstjórn! Í þessu ljósi er nærlægast að líta svo á að loforðið um þjóðaratkvæði hafi verið gefið fyrir hönd annarra flokka sem síðar tækju við stjórnartaumunum. Áttu menn virkilega að skilja þetta sem loforð upp í ermina á næstu ríkisstjórn? Allir sjá hvers kyns hringavitleysa það væri. Þessi spurning klýfur stuðningslið flestra flokka. Þegar forsætisráðherra og utanríkisráðherra hafna þjóðaratkvæði um hana eru þeir í raun að senda þau skilaboð til kjósenda Sjálfstæðisflokksins og eigin flokks, sem vilja efndir á loforðinu, að þeir verði að kjósa aðra flokka eða stofna nýja til að koma málinu fram. Sjálfsagt er ekki óhugsandi að mál skipist þannig. En hætt er við að hræringar af því tagi myndu veikja stjórnarfarið miklu meir og til lengri tíma en þjóðaratkvæði sem er einfaldari leið og veldur minni röskun. Skynsamlegt er að velja aðferð til að komast að niðurstöðu í þessu máli sem líkleg er til að valda sem minnstri sundrungu. Það á ekki síst við á erfiðum tímum eins og við lifum nú.Viljum við ekki taka þátt í framþróun? Utanríkisráðherra færir gjarnan þau rök fyrir því að ekki eigi að efna þjóðaratkvæðagreiðsluloforð forystu Sjálfstæðisflokksins sakir þess að Evrópusambandið hafi breyst síðan aðildarumsóknin var samþykkt á Alþingi. Af þessu má draga þá ályktun að ráðherrann vilji ekki að Ísland taki þátt í alþjóðasamstarfi sem þróast og tekur breytingum. Hitt er þó líklegra að þessi málsástæða sé lítt hugsuð og því fremur merki um skort á haldbærum rökum. Alþjóðasamtök sem staðna og breytast ekki í samræmi við nýjar kröfur og þarfir bera dauðann í sér. Nýjar reglur sem eru að mótast innan Evrópusambandsins um fjármálastöðugleika og eftirlit með fjármálastofnunum eru gott dæmi um nauðsynlega og þarfa aðlögun að nýjum aðstæðum. Frjáls viðskipti á þessu sviði kalla á ríkara alþjóðlegt samstarf. Nýjar hugmyndir Evrópusambandsins um ríkisfjármálastefnu falla einnig eins og flís við brot að kenningum Sjálfstæðisflokksins sem nú eru í framkvæmd. Þær eru því styrkur fremur en hindrun. Breytingarnar sem eru á döfinni eru beinlínis rök fyrir aðild Íslands. Hvernig eigum við að tryggja frjáls fjármálaviðskipti og stöðugleika á ný án þátttöku? Fátt bendir til að það sé hægt. Sú nýja hugsun um Evrópusambandið sem ráðherrar breska Íhaldsflokksins hafa viðrað gerir það síðan um sumt enn áhugaverðara fyrir Ísland að láta reyna á aðildarsamninga til þrautar.