Innlent

Snjóflóð kom í veg fyrir að sjúkrabíll kæmist til baka á Ísafjörð

Afleitt veður hefur verið á Vestfjörðum síðan síðdegis í gær og hefur það meðal annars valdið rafmagnstruflunum. Það hefur verið rafmagnslaust á Barðaströnd síðan aðfararnótt þriðjudags og þar er víða orðið kalt í húsum.

Björgunarsveitarmenn sóttu fólk úr föstum bíl á Kleifaheiði en annars voru sárafáir á ferð, að sögn lögreglu og minna snjóaði en búist var við.

Bíll valt í Seyðisfirði við Ísafjarðardjúp undir kvöld og slapp ökumaðurinn lítið meiddur. Hann komst upp á veg og var svo heppinn að þar bar að bíl, sem tók hann upp í.

Ákveðið var að opna Súðavíkurhlíð fyrir sjúkrabíl, sem ók til móts við bílinn og tók manninn um borð, en þegar halda átti til baka hafði snjóflóð fallið á veginn í hlíðinni þannig að sjúkraflutningamenn og ökumaðurinn héldu kyrru fyrir á Súðavík í nótt.

Hásjávað var í nótt og mikill sjógangur í höfnum, en ekki er vitað um tjón nema hvað grjót gekk á land og inn á veginn í svonefndum Króki við Íshúsfélagið á Ísfirði. Skólahald í grunnskólanum á Ísafirði hefur verið fellt niður í dag vegna óveðurs.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×