Snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands hefur lýst yfir óvissustigi vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum. Súðavíkurhlíð er af þeim sökum lokuð. Að sögn lögreglunnar á Vestfjörðum eru fáir á ferli og því hefur lítið verið um óhöpp í dag og nótt. Þá var skólahald fellt niður en veður er afleitt og er rafmagnslaust víða.
Íbúar á Barðaströnd eru án rafmagns en Barðastrandalína er spennulaus sökum ísingar. Þá eru nokkur hús á Tálknafirði án rafmagns en loftlína er brotin. Jarðstrengur sér þó langflestum fyrir rafmagni. Rafmagnslaust er í Dýrafirði utan Gemlufalls, vestanverðu Ísafjarðardjúpi og Árneshreppi en í hluta af sveitum Önundarfjarðar.
Veðurstofa Íslands spáir norðan 18-23 metrum á sekúndu með snjókomu og síðar éljum á Vestfjörðum, en hægari á stöku stað. Heldur hægari síðdegis og 13-18 á morgun og áfram él. Frost 1 til 7 stig.
Snjóflóðahætta og rafmagnslaust á Vestfjörðum
Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
