Innlent

Lagði sig í hættu við að lesa á veðurmæla

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Myndin vinstra megin er tekin í gær þegar þakplötur fuku af hlöðunni í Minnihlið.
Myndin vinstra megin er tekin í gær þegar þakplötur fuku af hlöðunni í Minnihlið. vísir/hafþór
„Ég hef aldrei vitað annað eins. Ég hef aldrei áður þurft að leggja sjálfa mig í hættu við að lesa á mælana en á meðan ég skreið að mælunum fuku tvær þakplötur inn í garðinn til mín. Þetta var alveg rosalegt,“ segir afmælisbarnið Margrét Jómundsdóttir veðurathugunarkona fyrir Veðurstofu Íslands í Bolungarvík.

Fárviðri var á Vestfjörðum í gær og fór vindhraði í allt að 35 metra á sekúndu, sem er fellibylsstyrkur. Vind er þó tekið að lægja en samkvæmt Veðurstofu Íslands er hann nú um 15-23 metrar á sekúndu. Skólahald féll niður í gær og í dag, rafmagnslaust er víða og hætta er á snjóflóðum á norðanverðum Vestfjörðum.

Upplifunin ævintýraleg

„Það að lesa á mælana tók mig fjörutíu mínútur, en vanalega tekur það mig ekki meira en fimm mínútur. Veðurhamurinn var rosalegur í gær og er með þeim verri sem ég hef upplifað,“ segir Margrét.

„Það gerði aftaka veður á milli jóla og nýárs 2012, sem er kannski svipað veðrinu núna. En að vera úti í 30 metrum á sekúndu var bara ævintýri. Vindhviðurnar fóru síðan í svona 70-80 metra á sekúndu og úrkoman í 57 mm. Það er virkilega mikið.“

Sá veðurofsann færast yfir

Margrét er með hross en hún rétt náði að koma þeim í hús áður en veðrið skall á. „Veðrið skall á á tíu mínútum og maður bara sá þegar kólgubakkinn kom inn í djúpið og færðist yfir.“

Ekkert ferðaveður er og mælir Margrét með að fólk haldi sig inni við á meðan veðrið gengur yfir. Það ætlar hún að gera, en Margrét fagnar 35 ára afmæli sínu í dag. Líklega mun hún því verja deginum í faðmi fjölskyldunnar.


Tengdar fréttir

„Glórulaus stórhríð“

Vindhraði náði hámarki á Vestfjörðum á milli átta og níu og mun vera hár áfram fram eftir kvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×