Innlent

Búið að opna Þrengslin og Hellisheiði

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Stórhríðarveður er á Norðurlandi.
Stórhríðarveður er á Norðurlandi. Vísir/Auðunn Níelsson
Búið er að opna fyrir umferð um Þrengslin og á Hellisheiði en hálka og skafrenningur er á báðum leiðum.

Þá er varað við flughálku á milli Þorlákshafnar og Hveragerðis og á Suðurstrandavegi úr Selvogi og upp Krísuvíkurveg. Hálka eða snjóþekja er á flestum vegum á Suðurlandi og við Faxaflóa og óveður mjög víða. Hálka og skafrenningur er á Mosfellsheiði og vont færi en óveður og snjóþekja á Lyngdalsheiði.

Ófært er um Holtavörðuheiði, Bröttubrekku, Svínadal og Laxárdalsheiði. Þungfært er og skafrenningur um Fróðárheiði, annars er hálka eða snjóþekja á Vesturlandi og víða er stórhríð.

Á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra er stórhríð og ekkert ferðaveður.

Á Vestfjörðum er búið að opna um Mikladal og Hálfdán þar er hálka og skafrenningur. Súðavíkurhlíð er lokuð vegna snjóflóðahættu og verður staðan metin aftur á morgun 11. des. Lokað er til Flateyrar vegna snjóflóðs, einnig er staðan metin aftur á morgun 11. des.

Á Norðurlandi vestra er búið að loka Þverárfjalli og Vatnsskarði.

Lokað er á milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar. Þæfingur er á Öxnadalsheiði. Lokað er um Víkurskarð.  Á Eyjafjarðarsvæðinu er snjóþekja og snjókoma en austan við Víkurskarð er hálka, snjóþekja og éljagangur.

Hálka og éljagangur er á Austurlandi en snjóþekja og éljagandur er með Suðausturströndinni. Flughált er frá Vík í Kirkjubæjarklaustur.

Þá er verðurhorfur þessar í kvöld og nótt:

Lægðardrög koma hvert af öðru úr norðri. Suðvestan til lægir heldur um stund en gengur aftur upp um tíma undir kvöld. Á Kjalarnesi er reiknað með vindhviðum, 30-40 metrum á sekúndu fram á kvöld, en þá lægir heldur. Eins byljótt undir Eyjafjöllum og í Mýrdal um tíma og nær hámarki um klukkan 18.

Á Norðurlandi verður áfram stórhríðarveður og 18-23 metrar á sekúndu fram á kvöld og smámsaman einnig norðaustanlands.

Á Austurlandi hvessir seint í kvöld og þar verður kafaldsbylur fram á morgunn. Jafnframt

byljótt og með snörpum vindhviðum suðaustanlans í nótt og fyrramálið.


Tengdar fréttir

Sunnlendingar innilokaðir vegna ófærðar

„Ef sjúkrabíll þarf að fara til Reykjavíkur á forgangi þá geri ég ég ráð fyrir að fenginn yrði snjóruðningstæki til að fara á undan bílnum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×