Innlent

Engin slys en þónokkuð tjón víða

Vísir/Ernir
Ekki er vitað til að nein alvarleg slys hafi orðið í ofsaveðrinu sem gekk yfir landið í gær og í nótt og verulega hefur dregið úr vindi nema hvað nokkuð hvasst er enn sumstaðar á Norðurlandi.

Allt að 350 björgunarsveitarmenn voru við störf á Suðvesturlandi langt fram eftir kvöldi og síðan var farið að kalla út sveitir fyrir norðan, sem voru við störf fram undir morgun.

Víða höfðu gluggar brotnað , hurðir fokið upp, heilu skúrarnir fokið um koll, gámar  og þakplötur fokið á bíla, klæðningar losnað og sólpallar skekkst, girðingar fokið niður og tré fallið. Mesti stöðugi vindhraðinn mældist á nokkkrum stöðum 29 metrar á sekúndu, sem telst ofsaveður og sumstaðar fór vindurinn upp í 50 metra á sekúndu í hviðum.

Hjálparbeiðnum ringdi inn til björgunarsveita og lögreglu og sumstaðar tóku slökkviliðsmenn þátt í hjálparstarfinu. Á Tjörnesi fauk 20 metra langur þakgluggi af nýju fjósi, en kýrnar sakaði ekki.

Hvergi er vitað um stórtjón á einhverjum einum stað, en tjón varð víða þannig að heildartalan mun sjálfsagt hlaupa á mörgum milljónum króna.

Innanlandsflug var fellt niður og mikil röskun varð á millilandaflugi. Nokkrar millilandaferðir voru  felldar niður og ein vélin varð að lenda á Akureyrarflugvelli.  Um tíma slokknaði á umferðarljósum á nokkrum gatnamótum í borginni. Strætóferðir voru felldar niður þegar veðurhamurinn var sem mestur og sára fáir voru á ferð á einkabílum.

Sárafá fiskiskip voru á sjó og þau flest í vari. Þó fékk eitt þeirra á sig brotsjó djúpt vestur af Snæfellsnesi í nótt. Við það brotnuðu rúður í íbúðargangi og sjór fór að fossa um gangana, en skipverjum tókst að þétta  gluggana á ný.

Tveir erlendir ferðamenn hringdu í Neyðarlínuna í nótt og óskuðu eftir aðstoð þar sem þeir sátu í föstum bíl sínum á Kjalvegi. Björgunarmenn voru  sendir frá Blönduósi og komu þeir að ferðamönnunum, heilum á húfi, laust fyrir klukkan sex í morgun. Búast má við að víða komi tjón í ljós þegar birtir af degi.   




Fleiri fréttir

Sjá meira


×